Fallast á verndun Víkurgarðs

Fallist hefur verið á sjónarmið Minjastofnunar um verndun Víkurgarðs og hefur stofnunin því dregið til baka friðlýsingartillögu sína um stækkun friðlýsts svæðis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Minjastofnun sendi frá sér nú í kvöld.

Lindarvatn lagði fram tillögu um að færa inngang sem fyrirhugaður var inn í garðinn og flytja hann nær Aðalstræti. Segir Minjastofnun þar með hafa náðst þau markmið sem stofnunin lagði upp með í síðari friðlýsingartillögu sinni, sem m.a. felast í því „að Víkurgarður fái þann virðingarsess sem honum ber sem einn merkasti minjastaður þjóðarinnar, þar verði opið og frjálst almenningsrými þar sem saga garðsins fær notið sín og fyrirkomulag hans verði framvegis óháð starfsemi á nærliggjandi lóðum. Þannig er skilið á milli garðsins og hótelsins sem nú er í byggingu á Landssímareitnum,“ að því er segir í tilkynningunni.

Bæta við nýjum inngangi á suðvesturhorninu

Forsvarsmenn Lindarvatns eru sagðir ítreka með yfirlýsingu sinni vilja til að menningarminjum á svæðinu verði sýnd virðing og sómi. Félagið hafi lagt fram tillögu um að færa innganginn nær Aðalstræti, auk þess sem nýjum inngangi verði bætt við á suðvesturhorni byggingarinnar, sem snýr út að Kirkjustræti og það samræmist deiliskipulagi.

Mennta- og menningarmálaráðherra friðlýsti Víkurgarð 8. janúar sl., en friðlýsingartillagan sem fallið var frá í dag sneri að stækkun þess svæðis um 8 metra til austurs. Svæðið allt er þó aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar frá árinu 2012 og þar má engu raska né breyta nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.

Segir Minjastofnun að með þessari lausn sé tryggt að friðlýst svæði Víkurgarðs verði ekki fyrir álagi vegna starfsemi hótelsins. Þess í stað verði gangandi umferð hótelgesta beint um innganga í Kirkjustræti, Aðalstræti og Thorvaldsenstræti við Austurvöll.

Einhugur um að auka virðingu Víkurgarðs

Einhugur er sagður vera um það hjá Minjastofnun Íslands, Lindarvatni, Reykjavíkurborg og mennta- og menningarmálaráðuneyti að marka Víkurgarði meiri virðingarsess. Undir hellulögðu yfirborði garðsins, sem margir kenna nú við Skúla fógeta, liggur rúmlega 1100 ára saga búsetu í Reykjavík.

Til stendur á vordögum að efna til hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Víkurgarðs og hvernig gera megi sögulegt hlutverk garðsins sýnilegra fyrir borgarbúa og gesti. Stefnt er að því að auglýsa þá samkeppni næsta vor.

Víkurgarður er á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Mynd úr safni.
Víkurgarður er á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina