Hafa ekkert með stjórn Gamma að gera

Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku segir bankann enn ekki vera eiganda …
Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku segir bankann enn ekki vera eiganda Gamma og geti því ekki reynt að hafa áhrif á rekstur félagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppniseftirlitið hefur enn ekki heimilað kaup Kviku á Gamma og bankinn er því ekki eigandi félagsins. Þetta segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, í svari við fyrirspurn mbl.is vegna þeirrar yfirlýsingar VR að félagið taki allt fé sitt úr eignastýringu hjá Kviku verði hækkun leigu hjá Almenna leigufélaginu ekki afturkölluð.

Sagði VR í yfirlýsingu fyrr í dag að það sætti sig ekki við að Al­menna leigu­fé­lagið hafi hækkað leigu um tugþúsund­ir króna í ein­hverj­um til­fell­um og gefið leigj­end­um fjóra daga til að samþykkja hækk­un­ina. 

„Við vonumst auðvitað eftir því að SKE [Samkeppniseftirlitið] samþykki kaupin, en það geta liðið vikur eða mánuðir þar til það gerist. Þar til kaupin ganga í gegn höfum við ekkert með stjórn Gamma að gera og er óheimilt að reyna að hafa einhver áhrif á rekstur félagsins og sjóðastýringu þess,“ segir Ármann.

Fyrir utan samþykki Samkeppniseftirlitsins, séu engir aðrir fyrirvarar settir við kaup Kviku á Gamma og því liggi fyrir að þau muni ganga í gegn fáist samþykkt Samkeppniseftirlitsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert