Mikill meirihluti vill kvótakerfið áfram

Mikill meirihluti mjólkurframleiðenda vill ekki afnema kvótakerfið.
Mikill meirihluti mjólkurframleiðenda vill ekki afnema kvótakerfið. mbl.is/Styrmir Kári

Mikill meirihluti mjólkurframleiðenda vill ekki afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu heldur halda í það. Samtals var það afstaða tæplega 90% af þeim 493 mjólkurframleiðendum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu Bændasamtakanna, en atkvæðagreiðslu um málið lauk nú á hádegi í dag.

Atkvæðagreiðslan var rafræn og stóð í eina viku. Hún fór fram í samræmi við ákvæði gildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Hver mjólkurframleiðandi hafði eitt atkvæði án tillits til fjölda aðstandenda að búinu, aðildar að Bændasamtökum Íslands eða Landssambandi kúabænda.

Í tilkynningu frá Bændasamtökunum kemur fram að niðurstaðan sé stefnumarkandi fyrir fulltrúa bænda við endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar sem fram fer síðar á þessu ári. Mun vinna við að móta þær áherslur nú taka við og stefnumörkun um aðra þætti samningsins sem koma þurfa til endurskoðunar.

Á kjörskrá voru 558 innleggjendur og alls greiddu 493 atkvæði eða 88,35%

Atkvæði féllu þannig:

50 eða 10,14% sögðu: Já, ég vil afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu

441 eða 89,41% sögðu: Nei, ég vil ekki afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu

2 eða 0,41% völdu að taka ekki afstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert