Fjórðungur stúlkna í 10. bekk sent ögrandi mynd

Tæplega 50% stúlkna í 10. bekk hafa verið beðnar um …
Tæplega 50% stúlkna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda einhverjum ögrandi mynd eða nektarmynd.

Tæplega helmingur stúlkna í 10. bekk í grunnskóla hefur verið beðinn um að senda einhverjum öðrum ögrandi mynd eða nektarmynd af sér í gegnum netið. Í tilfelli drengja er hlutfallið 28%. Hjá báðum kynjum hækkar hlutfallið mikið frá 8. bekk, þar sem 23% stúlkna hafa fengið slíka beiðni og 12% drengja. Þá hafa stúlkur oft verið beittar þrýstingi til að senda slíkar myndir og jafnvel verið hótað.

27% stúlkna og 21% drengja í 10. bekk sent ögrandi mynd

27% stúlkna í 10. bekk hafa sent ögrandi mynd eða nektarmynd af sér í gegnum netið á meðan 21% drengja á sama ári hafa gert það. Fyrir stúlkur er hlutfallið 20% í 9. bekk og 7% í 8. bekk, en hjá drengjum er það 13% í 9. bekk og 6% í 8. bekk.

Þetta er niðurstaða könnunarinnar ungt fólk 2018, sem framkvæmd var af Rannsóknum og greiningu síðasta vor. Rannveig Sigurvinsdóttir lektor við sálfræðisvið HR kynnti niðurstöðurnar á fundi í HR í dag, en hún og Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent við sömu deild, hafa unnið upp úr gögnum könnunarinnar.

Þetta var í fyrsta skiptið sem spurt var um myndsendingar sem þessar og því ekki hægt að sjá þróun síðustu ára.

Stúlkur segjast beittar þrýstingi að senda myndir

Fimmtungur stúlkna í 10. bekk sem hafa sent af sér myndir sem þessar segist hafa verið beittur þrýstingi, en í tilfelli drengja var hlutfallið 4%. Aftur er um línulega fjölgun að ræða í tilfelli stúlknanna, en 7% þeirra sem höfðu sent myndir í 8. bekk sögðust hafa verið beittar þrýstingi og 17% í 9. bekk. Hjá drengjunum var hlutfallið hins vegar lágt, 2% í bæði 8. og 9. bekk.

Hins vegar höfðu 35% stúlkna í 10. bekk sem höfðu sent slíkar myndir gert það af því að þær vildu það sjálfar. Í 9. bekk var hlutfallið 25% og í 8. bekk 10%. Hjá drengjum í 10. bekk höfðu 27% þeirra sem höfðu sent myndir gert það því þeir vildu það sjálfir, en hlutfallið var 17% í 9. bekk og 8% í 8. bekk.

Bryndís segir í samtali við mbl.is að með könnuninni hafi fengist þverskurður af öllum nemendum í 8.-10. bekk, en svarhlutfallið var á bilinu 80-90%. Í könnuninni er skoðuð hegðun á netinu, notkun tölvuleikja og ýmislegt annað. Þá hefur undanfarin ár verið spurt út í ofbeldi og kynferðisofbeldi í lífi grunnskólanema og var í fyrra bætt við spurningum um nektarmyndir.

„Verulegur hluti nemenda

„Við sjáum að það er aukning í þessu eftir aldri,“ segir Bryndís og vísar til þess að líklegra sé að eldri unglingarnir sendi slíkar myndir og séu beðnir um að senda þær. „Í 10. bekk er verulegur hluti nemenda sem hefur sent eða verið beðinn um að senda svona myndir,“ segir hún.

Þá segir hún mun á kynjunum koma sterklega í ljós. „Það er mikill kynjamunur. Stúlkur upplifa þrýstinginn miklu meira en strákar,“ segir Bryndís.

Algeng hegðun en ekki til umræðu

„Þetta er hegðun sem er mjög algeng, en ekki mikið til umræðu hjá foreldrum,“ segir hún og bætir við að samtal milli unglinga og foreldra um hvað slíkar myndsendingar fela í sér þurfi að aukast. Bendir hún á að oft séu mál sem þessi illa afturkræf og myndirnar séu jafnvel til áfram þótt þær eigi að eyðast. „Það er vont ef þau eru að upplifa þrýsting. Það er mikilvægt að ræða við unga fólkið þannig að það fái stuðning til að standa með sér,“ segir hún um þann þrýsting sem virðist vera um myndsendingar.

Spurð hvort lesa megi meira í niðurstöðurnar segir Bryndís að tengsl séu milli áfengisneyslu og að líða ekki vel og að senda ögrandi eða kynferðislegar myndir. Segir hún tengslin til staðar þótt þau séu ekki rosalega sterk. Þá sé þessi hópur mögulega í annarri áhættu líka. Bryndís segir mikilvægt að nota niðurstöður sem þessar til þess að skilja þennan hóp betur og skoða hvað hægt sé að gera til að aðstoða hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert