Norðanhríð fram yfir hádegi

Ekkert ferðaveður er víða á Norðausturlandi.
Ekkert ferðaveður er víða á Norðausturlandi. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Slæmt veður er á Norðausturlandi en þar gengur á með norðanhríð þessa stundina og fram yfir hádegi. Veðurstofan varar við því að þar geti akstursskilyrði verið varasöm, ekki síst á fjallvegum.

„Einnig er spáð snörpum vindhviðum undir Vatnajökli fram eftir morgni. Vegfarendum er bent á að fara varlega og fylgjast með veðurspám og ástandi vega,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Skjáskot af forsíðu Vegagerðarinnar

Vegagerðin er einkum með tilkynningar um færð á vegum á Twitter þessa stundina þannig að væntanlega borgar sig fyrir vegfarendur að skrá sig inn á Twitter vilji þeir fylgjast með færð á vegum. En á forsíðu Vegagerðarinnar birtast einnig einhverjar tilkynningar og hefur veginum um Mosfellsheiði verið lokað vegna veðurs í morgun og eins veginum um Klettsháls.

Á Twitter sést að veginum um Hólasand og Víkurskarð hefur einnig verið lokað.

Á Suðvesturlandi eru hálkublettir eða hálka á flestum leiðum en Reykjanesbrautin er greiðfær. Skafrenningur er á Sandskeiði og á Kjalarnesi. Á Vesturlandi er þungfært á Vatnaleið og á milli Búða og Hellna. Þæfingur er við Hafursfell, í Kolgrafarfirði og á Bröttubrekku en hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum öðrum leiðum. Skafrenningur mjög víða. 

„Áfram norðanhríðarveður á Norður- og Austurlandi fram yfir hádegi, en dregur síðan smám saman úr vindi og rofar til. Léttskýjað á sunnanverðu landinu, en sums staðar snarpar vindhviður við fjöll framan af degi. Fremur hæg austlæg átt og bjart með köflum á morgun, en strekkingur og stöku skúrir eða él við suðurströndina. Hvessir talsvert sunnanlands annað kvöld og rignir sums staðar og hlýnar. Á miðvikudagsmorgni er spáð austanstormi með rigningu eða slyddu um land allt, en lægir síðdegis og styttir upp,“ segir í hugleiðingum á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðan 10-18 m/s, en 15-23 undir Vatnajökli framan af morgni. Snjókoma eða él á N-verðu landinu, en léttskýjað syðra. Frost víða 0 til 5 stig, en frostlaust syðst og austast. Hægari og úrkomuminni síðdegis og kólnar heldur.
Suðaustlæg átt, 3-10 m/s og bjart með köflum á morgun, en 10-15 og stöku skúrir eða él við S-ströndina. Hvessir talsvert S-lands um kvöldið, rignir víða þar og hlýnar heldur í veðri.

Á þriðjudag:

Austlæg átt, 8-15 m/s og skýjað með köflum, en 15-23 með S-ströndinni þegar líður á daginn og stöku él syðst. Hiti 0 til 5 stig syðra, en frost annars 1 til 6 stig. 

Á miðvikudag:
Gengur í austanstorm með talsverðri rigningu eða slyddu, en snjókomu til fjalla. Lengst af úrkomulítið fyrir norðan. Dregur talsvert úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn. Heldur hlýnandi veður. 

Á fimmtudag og föstudag:
Allhvöss eða hvöss sunnanátt með rigningu, en þurrt að kalla fyrir norðan. Fremur hlýtt í veðri. 

Á laugardag:
Útlit fyrir að lægi og kólni með slyddu eða snjókomu A-lands, en annars þurrt að kalla. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir hæga vinda og bjartviðri, en vaxandi suðaustanátt með rigningu eða slyddu SV-til um kvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert