Seldu niðurfærða bíla 2017 og 2018

Bílaleigan Procar seldi að minnsta kosti 19 bíla með niðurfærðri …
Bílaleigan Procar seldi að minnsta kosti 19 bíla með niðurfærðri kílómetrastöðu á árunum 2017 og 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ýmis rangindi eru í yfirlýsingunni sem stjórn Procar ehf. sendi út á fjölmiðla síðasta þriðjudagkvöld, eftir að fréttaskýringarþátturinn Kveikur opinberaði að bílaleigan hafði átt við ökumæla í bifreiðum sínum, til þess að gera þá auðseljanlegri.

Í yfirlýsingu bílaleigunnar sagði meðal annars að fyrirtækið hefði hætt að fikta í kílómetrastöðu bílanna árið 2015 og að málið varðaði einungis bifreiðar sem seldar hefðu verið á árunum 2013-2016, en gögn sem mbl.is hefur undir höndum og blaðamaður hefur borið saman við upplýsingar úr ökutækjaskrá Samgöngustofu, sýna að bílar sem átt var við árið 2016 voru seldir á árunum 2017 og 2018, bæði til fyrirtækja og einstaklinga.

Hér er um að ræða að minnsta kosti 19 bíla, samkvæmt þeim gögnum úr bókunarkerfi bílaleigunnar sem blaðamaður hefur skoðað. 16 þeirra voru seldir árið 2017 og þrír til viðbótar árið 2018, sá síðasti í nóvember síðastliðnum. Þar var um að ræða Nissan Pathfinder-jeppa, sem í mars árið 2016 var „spólaður til baka“ um rúmlega 33 þúsund kílómetra.

„Nei, er það?“ sagði svekkt Guðríð Helena Petersen, sem keypti umræddan bíl af Procar fyrir aðeins fjórum mánuðum, þegar blaðamaður tjáði henni að átt hefði verið við kílómetrastöðu jeppans. Hún sagðist ekki vita hvert hún ætti að snúa sér núna í framhaldinu, en veltir því fyrir sér að fara með málið til lögreglu.

„Þetta er bara hræðilegt. Bíllinn er allur á láni og lánið væri örugglega lægra ef að ég hefði vitað hversu marga kílómetra þessi bíll er keyrður. Ég er bara alveg í sjokki,“ segir Guðríð.

Fleiri rangindi staðfest

Bæði Stundin og RÚV höfðu áður greint frá því að yfirlýsing Procar stæðist ekki skoðun og að átt hefði verið við bíla á árinu 2016. Stundin greindi einnig frá því að það væri rangt, samkvæmt gögnum úr bókunarkerfi bílaleigunnar, að sá sem hefði borið ábyrgð á þessari framkvæmd væri hættur störfum.

Það virðast gögnin sem mbl.is hefur undir höndum staðfesta. Hið minnsta var aðgangur Smára Hreiðarssonar, sem enn starfar hjá Procar, notaður til þess að breyta kílómetrastöðu í næstum því tuttugu bílum á árinu 2016.

Smári vildi ekki tjá sig um málið að neinu leyti þegar blaðamaður náði sambandi við hann í morgun og vísaði öllum spurningum blaðamanns á Draupni lögmannsþjónustu.

Tveir bílar „spólaðir til baka“ um 100.000 kílómetra

Procar sagði einnig í yfirlýsingu sinni að í flestum tilfellum hefði „niðurfærslan“ á kílómetramælunum numið 15-30 þúsund kílómetrum. Það er ansi hæpin fullyrðing, miðað við þau gögn sem blaðamaður hefur séð og mætti segja að það væri fremur undantekning að niðurfærslan er svo lítil.

Gögnin úr bókunarkerfinu varða alls tuttugu bíla, sem átt var við árið 2016. Þau sýna að einn bíll var færður niður um u.þ.b. 11 þúsund kílómetra, tveir á bilinu 18-30 þúsund kílómetra, en aðrir meira. Átta af bílunum tuttugu voru færðir niður um meira en 75.000 kílómetra og tveir Suzuki Jimny-jeppar voru „spólaðir til baka“ um meira en 100.000 kílómetra. Þeir eru nú í eigu annarrar bílaleigu, eins og fleiri bílar úr gögnunum sem mbl.is hefur skoðað.

mbl.is