Þakkaði Karli Gauta góða yfirferð

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra þakkaði Karli Gauta Hjaltasyni fyrir góða yfirferð …
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra þakkaði Karli Gauta Hjaltasyni fyrir góða yfirferð yfir skynsama ráðstöfun skattfjár með lokun útibúa sýslumannsembætta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður utan þingflokka, gagnrýndi í fyrirspurn sinni til Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra á Alþingi í dag að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hafi verið fenginn til starfa í Reykjavík án þess að staða hans hafi verið auglýst, þar sem kveðið er á um að sýslumaður skuli vera í Eyjum.

„Á hvaða vegferð er Sjálfstæðisflokkurinn? Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur verið unnið markvisst að því að leggja niður embætti og stjórnsýslu í héraði,“ fullyrti Karl Gauti. Þá nefndi þingmaðurinn að meðal annars hafi sýslumannsembætti verið lögð niður í Vík í Mýrdal, Höfn í Hornafirði, Neskaupstað, Ólafsfirði, Siglufirði, Hólmavík, Patreksfirði, Búðardal og Akranesi.

„Eru það áform hæstvirts ráðherra að gera bara eitt sýslumannsembætti á landinu sem staðsett verður í Reykjavík?“ spurði Karl Gauti.

„Virðulegi forseti, ég vil þakka hátt virtum þingmanni fyrir þessa góðu yfirferð yfir þá hagræðingu og þá skynsömu ráðstöfun á skattfé sem hefur orðið í tengslum við lokun á einstökum útibúum úti á landi,“ svaraði Sigríður.

Þjónustan óbreytt

Hún sagði jafnframt að ekki væri verið að fækka sýslumannsembættum, heldur útibúum. Þá sagði hún einnig að í Vestmannaeyjum hafi ekki verið dregið úr þjónustu.

„Það að sýslumaðurinn hafi tekið sér tímabundið leyfi og starfar hérna í Reykjavík fyrir sýslumannaráð, sem hefur verið ómannað hingað til og hefur þó hlutverki að gegna, en fær nú starfsmann. Sýslumaðurinn hefur enn sína skipun og það kemur ekki til greina að skipa í það embætti eða auglýsa tímabundið,“ sagði Sigríður.

„Það sem mestu máli skiptir er að þjónustan er algerlega óbreytt í Vestmannaeyjum. Algerlega, þótt sýslumaðurinn hafi komið upp á land í sátt og samlyndi við aðra sýslumenn og sýslumannaráð,“ bætti hún við.

mbl.is

Bloggað um fréttina