Boða nýtt 32,94% skattþrep

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnir tillögurnar.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnir tillögurnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýtt neðsta skattþrep sem verður 4 prósentustigum lægra til þess að lækka skattbyrði og nýtt viðmið í breytingum persónuafsláttar ásamt afnámi samnýtingar þrepa eru helstu tillögur ríkisstjórnarinnar til vegna yfirstandandi kjaraviðræðna.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti tillögurnar á blaðamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í dag.

Nýtt neðsta þrep mun vera 32,94%, milliþrepið mun vera 36,96% og efsta þrep 46,24% samkvæmt tillögunum. Þrepamörk neðsta þreps og milliþreps mun miða við 325 þúsund krónur. Mörk efsta þreps haldast óbreytt og miðast við 927 þúsund krónur.

Einstaklingur sem er með 325 þúsund krónur í tekjur mun eftir breytinguna hafa 17,85% skattbyrði og mun því greiða um 81 þúsund minna í skatt á ári. Þá verða skattleysismörk tæplega 160 þúsund.

Áætlað er að breytingarnar á skattkerfinu muni valda því að tekjur ríkissjóðs verði minni sem nemur 14,7 milljörðum vegna skattkerfisbreytinga.

Þá verður persónuafsláttur 56.447 krónur.

Áætlað er að breytingarnar á skattkerfinu muni valda því að …
Áætlað er að breytingarnar á skattkerfinu muni valda því að tekjur ríkissjóðs verði minni sem nemur 14,7 milljörðum vegna skattkerfisbreytinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bætir sérstaklega stöðu kvenna

Samkvæmt fréttatilkynningu ráðuneytisins lækkar skattbyrði lágtekjufólks um 2 prósentustig verði fyrirætlanir stjórnvalda um breytingar á skattkerfinu samþykktar og eiga þær sérstaklega að bæta stöðu kvenna, fólks á aldrinum 18-24 ára, 25-34 ára, öryrkja, eldri borgara, þeirra sem ekki eiga húsnæði og þeirra sem þiggja húsnæðisstuðning.

Hækkun barnabóta árið 2019 nemur 1,6 milljörðum króna og hækkun persónuafsláttar umfram verðlag 1,7 milljörðum króna. Alls eru tillögur stjórnvalda í tekjuskatti og barnabótum því sagðar nema 18. milljörðum króna.

Starfshópur hefur unnið tillögur að breytingum eftir þeim leiðarstefjum stjórnarinnar að minnka álögur og líta til jafnaðar. Niðurstaðan af vinnu hópsins er að æskilegt sé að jöfnunin grundvallist meira á þrepum kerfisins en persónuafslætti og skattleysismörkum og mælti hópurinn því með nýju skattþrepi, sem lækki skatthlutfall sérstaklega fyrir þá sem eru í lægstu tekjutíundunum. 

Gert er ráð fyrir að breytingarnar komi til framkvæmda í skrefum á árunum 2020-2022.

Félögin ekki sátt

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, gekk af fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar í hádeginu í dag og sagði hann tillögur þeirra langt undir væntingum.

Stéttarfélögin fjögur sem leitt hafa yfirstandandi kjaraviðræður, VR, Efling, VLFA og VLFG, lýstu reiði og sárum vonbrigðum með þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram á fundi með forseta og varaforsetum ASÍ í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert