Dagur vonbrigða segir Drífa

Drífa Snædal, forseti ASÍ, er ekki sátt við skattatillögur ríkisstjórnarinnar.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, er ekki sátt við skattatillögur ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Eggert

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir á Facebook-síðu sinni nú í kvöld að það hafi verið dagur vonbrigða þegar ríkisstjórnin kynnti stéttarfélögunum skattatillögur sínar í dag.

„1. Skattalækkun upp allan stigann,“ segir Drífa í færslu sinni og kveður engan hafa verið að kalla eftir skattalækkun á hæstu tekjuhópana. 

Annað atriðið sé sennileg frysting persónuafsláttar í nokkur ár, enda feli það í sér raunlækkun persónuafsláttar. 



„3. Ekkert meira inn í barnabóta- og húsnæðiskerfin en komið er,“ segir Drífa og bendir á að  fjármagn í barnabætur hafi ekki enn náð raungildi ársins 2010. 

Í fjórða lagi feli tillögurnar engan hátekjuskatt í sér, né heldur hækkun á auðlindagjöldum og fjármagnstekjuskatti og því sé tekjuöflunin engin. 

Að lokum sé skattalækkunin á þá hópa sem enn nái ekki endum saman ekki meiri en svo að hún dugi „varla fyrir einni ferð í Bónus og sú lækkun á að koma einhvern tímann á næstu þremur árum,“ segir Drífa.

Niðurstaðan sé sú að þetta verði ekki til að liðka fyrir kjarasamningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert