Fyrndar kröfur ekki á vanskilaskrá

Höfuðstöðvar Creditinfo í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Creditinfo í Reykjavík. mbl.is/Ernir

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Creditinfo að fyrirtækið reki hvorki miðlægan grunn um lánasögu einstaklinga, líkt og haldið hafi verið fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 á sunnudagskvöldið, né séu fyrndar kröfur birtar á vanskilaskrá.

Haft var eftir Sævari Þór Jónssyni lögmanni í frétt Stöðvar 2 að dæmi væru um að fólki væri til að mynda neitað um kreditkort vegna lánasögu sem Creditinfo hefði nýlega farið að birta. Þetta væri ólöglegt og málið yrði kært til Persónuverndar.

„Félagið hefur hins vegar í um áratug rekið svokallað skuldastöðukerfi en inn í það miðla rúmlega 30 lánveitendur sem starfa undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, gögnum um núverandi skuldastöðu einstaklinga og lögaðila,“ segir í tilkynningunni.

Ekki sé um að ræða gagnagrunn hjá Creditinfo um stöðu allra lána hjá viðkomandi lánveitendum heldur sé staðan sótt í rauntíma hjá hverjum og einum lánveitanda þegar skuldastaðan er sótt á grundvelli upplýsts samþykkis einstaklings.

Sótt skuldastaða geymi yfirlit yfir núverandi stöðu lána viðkomandi en ekki upplýsingar um lánasögu eins og haldið hafi verið fram í fréttinni.

„Upplýsingum um fyrndar kröfur er ekki miðlað á skuldastöðuyfirliti. Í tilfelli skuldastöðukerfisins er Creditinfo vinnsluaðili fyrir þá lánveitendur sem eru ábyrgðaraðilar þeirra upplýsinga sem miðlað er inn í kerfið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert