Getur komið til lokana í nótt

Veðrið á miðnætti í nótt. Gul viðvörun er í gildi …
Veðrið á miðnætti í nótt. Gul viðvörun er í gildi fyrir landið allt. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Fyrsta viðvörunin tók gildi fyrir sjö mínútum síðan,“ segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands, en í kvöld, nótt og fyrramálið gengur austanstormur með úrkomu yfir landið frá suðri til norðurs og er gul viðvörun í gildi á landinu öllu.  

Þegar mbl.is ræddi við hann klukkan rúmlega tíu kvöld var kominn stormur í Landeyjahöfn og norðan Reynisfjalls. „Það er að ganga í þetta,“ segir Daníel og bætir við að við Hvamm undir Eyjafjöllum mælist vindhraði í mestu hviðunum nú þegar 35 m/s. „Þannig að það má búast við að það fari eitthvað yfir 40 metrana þar þegar líður á nóttina,“ segir hann og kveður mjög byljótt á þeim slóðum.

Skafrenningur er á Hellisheiðinni,en vind er enn ekki tekið að herða þar. Við Hafnarfjallið eru hviður hins vegar komnar upp í 30 m/s og er útlit fyrir að þannig verði það út nóttina.

Varar Vegagerðin á vef sínum við að vegna slæms veðurútlits kunni að koma til lokunar á Hellisheiði og Þrengslum frá miðnætti og til kl 6.00 í fyrramálið. Einnig sé reiknað með mjög hvössum vindi við Hafnarfjall, Kjalarnes og undir Eyjafjöllum.

Fólk er því varað við að vera á ferðinni að nauðsynjalausu.

Ört vaxandi austanátt í kvöld, 15-25 m/s, verður á landinu sunnanverðu um miðnætti, hvassast syðst. Það fer að rigna á láglendi og hlýnar, sums staðar með snjókomu eða slyddu í fyrstu. Það hvessir einnig norðan- og austanlands seint í nótt og í fyrramálið með snjókomu eða slyddu á þeim slóðum. 

Daníel segir að strax í fyrramálið verði farið að draga úr veðrinu sunnanlands. „Þannig að maður vonar að sem fæstir verði varir við þetta.“ Skilin verða hins vegar fram á morgundaginn að ganga yfir, en gera má ráð fyrir að það stytti upp á norðanverðu landinu síðdegis á morgun. Það gæti því verið skafrenningur og hríð á fjallvegum á norðaustanverðu landinu fram yfir hádegi. Vindurinn þar verður þó minni en á Suðurlandi.

Eftir frekar milt veður á morgun kemur næsta lægð svo upp að landinu aðra nótt og er útlit fyrir suðlægar áttir með vætu á köflum sunnanlands fram yfir helgi.

Veðrið á mbl.is

mbl.is