Gult um allt land

Gul viðvörun er á öllu landinu.
Gul viðvörun er á öllu landinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gefin hefur verið út gul viðvörun vegna veðurs um allt land. Gengur í austanstorm í kvöld, nótt og í fyrramálið með úrkomu yfir landið frá suðri til norðurs. Veðrið gengur ekki niður fyrr en um miðjan dag á morgun, samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands.   

Á höfuðborgarsvæðinu gengur í austan 15-25 m/s, hvassast í efstu byggðum og á Kjalarnesi. Hviður á Kjalarnesi yfir 35 m/s. Lausamunir geta fokið. Einnig slydda eða snjókoma um tíma í efri byggðum.

Erfið akstursskilyrði vegna takmarkaðs skyggnis og snjó-/krapaþekju á vegi og mögulega ófærð á Hellisheiði og víðar. Búast má við að vegir í uppsveitum á Suðurlandi verði einnig erfiðir.  

„Austan 18-25 m/s, hvassast syðst á svæðinu. Vindhviður undir Eyjafjöllum um eða yfir 40 m/s þegar verst lætur. Varasamt ferðaveður, sér í lagi fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Lausamunir geta fokið.“ Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. 

Þegar líða tekur á daginn slotar veðrinu, fyrst sunnanlands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert