Oft eldri en þeir segðust vera

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðherra telur ekki ástæðu til þess að breyta framkvæmd aldursgreininga og álítur þær ekki siðferðislega ámælisverðar, enda sé gert ráð fyrir upplýstu samþykki umsækjanda í hvert sinn auk þess sem gerðar séu kröfur um að framkvæmdin sé mannúðleg og gætt að réttindum og reisn þeirra einstaklinga sem undir slíkar rannsóknir gangast.

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar. Ráðherrann sagði að áfram þyrfti að tryggja að þær aðferðir sem beitt væri við líkamlegar aldursgreiningar væru áreiðanlegar í hvert sinn en niðurstöður slíkra rannsókna hér á landi og í nágrannalöndum Íslands hefðu sýnt að umsækjendur væru oft í reynd eldri en þeir segðust vera.

„Dómsmálaráðherra hefur lagt áherslu á að Útlendingastofnun hafi verklag og viðmiðanir sínar um ákvörðun aldurs til stöðugrar endurskoðunar og taki mið af og nýti sér bestu mögulegu heimildir og tækni í þeim efnum. Þá hefur ekki verið álitið að líkamlegar rannsóknir, þegar þær reynast nauðsynlegur þáttur í heildstæðu mati til ákvörðunar aldurs, teljist sem slíkar brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert