„Saman getum við allt“

Alexandra Pascalidou lætur ekki þagga niður í sér þrátt fyrir …
Alexandra Pascalidou lætur ekki þagga niður í sér þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess. mbl.is/Árni Sæberg

Hún hefur barist fyrir réttindum fólks í áratugi og það hefur tekið sinn toll. Þetta er gjaldið sem þú greiðir fyrir að tjá skoðanir þínar. „Það verður alltaf til fólk, sérstaklega karlar, sem finnst að sér vegið og reyna sitt besta til þess að þagga niður í þér,“ segir Alexandra Pascalidou, fjölmiðlakona frá Svíþjóð. Hún var aðalfyrirlesari á málstofu um #metoo-hreyfinguna á vegum norrænu ráðherranefndarinnar hér á landi í síðustu viku. Pascalidou segir metoo snúast um svo miklu meira en kynferðislega áreitni. Metoo snúist um baráttuna gegn misbeitingu valds og að saman getum við barist gegn brotum á mannréttindum sama hvort þau beinast gegn konum, innflytjendum, kynhneigð eða fötluðum. „Saman getum við allt,“ segir hún við blaðamann mbl.is.

Alexandra Pascalidou fæddist árið 1970 í Grikklandi og flutti ásamt fjölskyldu sinni til Svíþjóðar þegar hún var sex ára gömul. Hún ólst upp við mjög erfiðar aðstæður, faðir hennar var drykkfelldur og ofbeldishneigður. Fjölskyldan bjó í fátækasta hverfi Stokkhólms, Rinkeby, hverfi sem hún segir að allir Svíar þekki og reyni að forðast. „Þegar ég var að alast upp var það kallað gettó en nú er það eitt þeirra hverfa sem er talað um sem no go zone,“ segir hún og vísar þar til umræðu um að slík hverfi séu til á skrá sænsku lögreglunnar vegna mikillar glæpatíðni þar. 

Rasisminn mætti okkur alls staðar

Pascalidou segir að margir innflytjendur búi í hverfinu og rasismi hafi mætt fjölskyldum þaðan alls staðar. „Í hvert skipti sem við fórum inn í miðborg Stokkhólms bað mamma okkur um að gæta vel að því að horfa ekki á neinn og ekki tala við neinn. Hún vildi að við værum ósýnilegar því fólk væri fyrir fram búið að ákveða að við værum þjófar. Þegar ég sótti um vinnu með skóla var nóg að segja nafn mitt Pascalidou og að ég byggi í Rinkeby. Það þurfti ekki meira til þess að vera öruggur um að fá ekki vinnu og það skipti engu máli að ég var einn besti nemandi skólans.

Strax í barnæsku varð útlit mitt, nafn og heimilisfang nóg til þess að hindra mig í því sem ég vildi gera. Þannig að þrátt fyrir að vera öflug talskona jafnréttis kynjanna þá er ekki langt síðan ég gerði mér grein fyrir því að ég væri femínisti. Því ég leiddi aldrei hugann að kyni mínu þar sem ég hafði nóg með að vera innflytjandi í einu helsta lýðræðisríki Evrópu,“ segir Pascalidou. 

FREDRIK PERSSON

Staðan verri í dag

Staðan er aftur á móti miklu verri í dag fyrir íbúa hverfa eins og Rinkeby því það er nánast ógerningur fyrir þá að fá tækifæri til þess að vinna sig upp og á betri stað í lífinu. 

„Ég hafði tækifæri til þess að fara á bókasöfn, læra tónlist og taka þátt í tómstundastarfi. Eitthvað sem börn úr þessum hverfum hafa ekki í dag. Við nutum þeirra forréttinda að búa í velferðarkerfi þar sem reynt var að gefa okkur tækifæri og ég nýtti mér þau til hins ýtrasta enda bjuggum við þröngt og stöðugt rifrildi í gangi heima. 

Þegar ég er að vinna með krökkum sem koma úr þessum fátækustu úthverfum í dag sé ég að þau hafa miklu færri tækifæri en við höfðum. Sjö manna fjölskylda frá Sómalíu býr kannski í tveggja herbergja íbúð og kennarar í skólunum í innflytjendahverfunum segja að þeir geti ekki látið börn læra heima því þau eiga hvorki ritföng né bækur þar sem sænsk stjórnvöld hafa dregið mjög úr stuðningi við fátækt fólk og þá sem hafa komið þangað á flótta.“

Þegar Pascalidou var fjórtán ára gömul var henni nauðgað af manni sem bjó ekki langt frá henni. Hún var á leiðinni heim af æfingu og var að bíða eftir strætó þegar maðurinn bauð henni far. Hann sagðist þurfa að koma við í vinnunni og sækja lyklana sína. Þar nauðgaði hann henni. Hún sagði engum frá þessu fyrr en í tengslum við #metoo. En hún var ekki ein því hann braut gegn öðrum stúlkum. Stúlkum sem voru í svipuðum aðstæðum og hún. Stúlkur sem voru kallaðar druslur og hórur, ekki brotaþolar ofbeldis. 

Hótað lífláti og ofbeldi

Pascalidou var sú fyrsta úr fjölskyldunni og nærumhverfinu sem lauk háskólanámi. Fljótlega eftir að hún fór að starfa hjá sænska sjónvarpinu fóru henni að berast hótanir af hálfu nýnasista. Fólks sem taldi innflytjendur bera ábyrgð á öllu sem miður fór í sænsku samfélagi. „Mér var hótað lífláti og kynferðisofbeldi. Að mér yrði nauðgað og skuldinni skellt á flóttamenn. Þeir stóðu grímuklæddir fyrir utan heimili mitt og báru vopn. Enginn gerði neitt, hvorki starfssystkini mín, lögreglan né yfirmenn mínir. Því á meðan enginn sagði neitt þá voru þeir öruggir og tryggt að hótanirnar beindust ekki gegn þeim. Það var í raun ekki fyrr en ný-nasistar hótuðu lögreglustjóra, miðaldra hvítum sænskum karli, að eitthvað gerðist. Þeir náðust en ég missti vinnuna,“ segir hún.

Pascalidou segist aldrei hafa litið á þetta sem árás á hana persónulega heldur sem árás á lýðræðið. Með því að þagga niður í mér vanvirtu þeir frelsi fjölmiðla, tjáningarfrelsið.

„Þeir hótuðu að nauðga mér, drepa mig og beita mig ólýsanlegu ofbeldi og svar vinnuveitenda míns, SVT, var að reka mig úr starfi þáttastjórnanda. Þeir losuðu sig við vandamálið með því að segja mér upp starfinu.“ 

Hún segir að yfirmenn hennar hafi sagt henni að þeir óttuðust ný-nasistana og þess vegna væri henni sagt upp. „Þeir voru hræddir en hvað um mig sem var fórnarlambið? Mér var hótað en ekki þeim og byggðu þeir uppsögnina á að þetta væri gert til þess að vernda mig. Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að með þessu veittu þeir ný-nasistum heimild til þess að ákveða hverjir væru velkomnir í Svíþjóð og hverjir ekki,“ segir Pascalidou en þetta var veturinn 1998-1999. 

Öfgamenn í norræni nasistahreyfingu, Nordic Resistance Movement.
Öfgamenn í norræni nasistahreyfingu, Nordic Resistance Movement. AFP

Mikilvægt að verja lýðræðið

Í kjölfarið skrifaði hún sína fyrstu bók Bortom mammas gata þar sem hún fjallaði um uppvaxtarár sín, drauma sína um aðra framtíð og þær árásir sem biðu hennar. Bæði sem innflytjenda og síðan sem konu. „En kynbundin mismunun var ekki aðalmálið í mínum huga, segir hún því staða hennar sem innflytjanda og íbúa í fátæku hverfi var alltaf það sem hún þurfti að svara fyrir. „Ég held að þeir sem ofsóttu mig hafi aldrei litið á mig sem konu því það var svo margt annað sem þeir töldu sig hafa gegn mér sem innflytjanda frá Rinkeby,“ segir Pascalidou.

Hún segir það mikilvægasta sem Evrópubúar standi frammi fyrir sé að verja lýðræðið með öllum sínum hliðum, jafnrétti og fjölbreytni. „Við búum á tímum þar sem áskoranirnar eru miklar. Á tímum þar sem lygafréttir og eft­iráskýr­ing­ar (post-truth), áróður og til­raun­ir til að þagga frelsið til þess að segja satt verða sí­fellt al­geng­ari í lýðræðis­ríkj­um. Á tímum þar sem fjölmiðlar eru fjármagnaðir af valdamiklu fólki. Fólki sem er tilbúið að gera ýmislegt til þess að þagga niður í þeim sem reyna að berjast á móti. Fólki sem berst gegn kynjamisrétti, rasisma og ójafnrétti. Mannréttindum eins og réttindabaráttu LGTBQ og annarra minnihlutahópa. Við sjáum fjölmiðla ítrekað verða fyrir árásum. Eitthvað sem innflytjendur og aðrir minnihlutahópar hafa ítrekað þurft að búa við. En frá því Donald Trump komst til valda og var kjörinn forseti Bandaríkjanna eru fjölmiðlar skotmarkið,“ segir hún. 

Pascalidou hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir skrif sín á sama tíma og fólk er sífellt að gefa henni ráð um hvernig hún eigi að hegða sér þannig að hún falli betur að efri lögum þjóðfélagsins á kostnað uppruna. „Hvað ég á að segja og hvað ég á ekki að segja. Hvernig ég á að bera mig og hvernig ég á að bregðast við. Þetta hefur mér bara alls ekki tekist,“ segir Pascalidou og bætir við: „Þú getur ekki talað svona. Ekki vera svona hávær þannig erum við Svíar ekki...,“ segir hún og hlær um leið og hún grettir sig yfir stöðu mála árið 2019.  

„Þau reyndu að breyta persónu minni svo ég myndi falla betur að þjóðfélaginu og við erum að tala um eitt kraftmesta lýðræðisríki heims, Svíþjóð.“

Álitin öfgasinni fyrir að berjast fyrir mannréttindum

Pascalidou segir það skyldu sína sem manneskju að berjast gegn slíku misrétti. Rasisminn leynist víða og beinist gegn svo mörgum að hennar sögn. Þrátt fyrir að baráttumálin séu mörg þá sé niðurstaðan sú sama – að berjast fyrir rétti sínum sem manneskju í lýðræðisþjóðfélagi. 

„Ég er búin að vera í þessari baráttu í 20-25 ár og á þessum tíma eru margir orðnir hundleiðir á mér og hafa gefist upp á að hóta mér en alls ekki allir og mér berast enn líflátshótanir. Annað sem ég tek eftir er að níðið er orðið fágaðra en áður. Í stað þess að hóta mér beint, enda hefur það sýnt sig að það hefur ekki virkað, er núna reynt að stimpla mig sem öfgasinna. Ef það eru öfgar að berjast fyrir mannréttindum eins og þau eru skilgreind af Sameinuðu þjóðunum þá er ég öfgasinni en ég lít svo á að mörk heilbrigðrar skynsemi hafi færst til.“ 

Pascalidou segir að þetta sýni svart á hvítu hversu mikilvægt sé að styðja ungt fólk í að standa í fæturna og spyrna gegn valdamiklu fólki sem sér hag í því að þagga niður í konum eins og henni. „Okkur ber skylda að tryggja börnum okkar réttinn til tjáningarfrelsis. Við verðum að standa saman og styðja hvert annað. Því það er auðvelt að hóta okkur og þagga niður í okkur ef við stöndum ekki saman sem einn hópur. Saman getum við allt,“ segir hún. 

Norræna ný-nasistahreyfingin, Nordic Resistance Movement.
Norræna ný-nasistahreyfingin, Nordic Resistance Movement. AFP

Pascalidou hefur komið víða við í skrifum sínum, meðal annars hefur hún fjallað um stöðu Rómafólks, tekið viðtöl við leigubílstjóra víða um heim og hún skrifaði einnig bókina #Me too: Så går vi vidare Röster, redskap och råd árið 2017.  

Hún segir að þegar fyrstu me too-málin komu upp hafi hún óttast að þetta yrði stormur sem færi hratt yfir og síðan ekki söguna meir. Allir yrðu búnir að gleyma þessum sögum eftir nokkrar vikur. Því hafi hún ákveðið að skrifa bók þar sem hún safnaði saman sögum fjölda kvenna í Svíþjóð. Margar þeirra eru þekktar í sænsku samfélagi en alls ekki allar. Sú elsta lifði af helförina, ráðherrar, leikarar en einnig konur sem ekki eiga sér málsvara í opinberri umræðu. Til að mynda konur sem starfa við ræstingar. Konur sem geta ekki staðið upp og sagt sögu sína undir nafni því þær hafa einfaldlega ekki ráð á því. Ef þær missa vinnuna þá er enginn til þess að brauðfæða börn þeirra. Þetta eru ekki allt táknmyndir kvenna á framabraut enda fáar konur sem falla undir skilgreiningu ýmissa á þeirri manneskju. Við erum engar Barbie-dúkkur, segir Pascalidou.

Móðurástin er sterkasta aflið

Nýjasta bók Pascalidou, Mammorna, kom út í fyrra. Þar talar hún við tuttugu mæður sem eru fastar í fátæktargildru. Konur sem koma alls staðar að úr heiminum en eiga það sameiginlegt að vera búsettar í hverfum þar sem fátæktin er mest. Frá Rosengård til Rinkeby, frá Kronogården til Kronoparken, frá Hammarkullen til Gottsunda. Þetta eru meðal annars mæður sem hafa misst syni sína, hafa verið beittar ofbeldi eða hafa háð erfiða lífsbaráttu. Pascalidou segir bókina fyrst og fremst vera um ást mæðra á börnum sínum. Sama hvað gengur á – móðurástin er sterkari en allt annað, segir hún. 

Hver þekkir þessa ungu menn?

„Ég er að tala um fólk sem kynslóð eftir kynslóð kemst ekki út úr aðstæðum sem þeim eru ætlaðar á grundvelli uppruna síns. Um 200 ungir menn, á aldrinum 15-25 ára, hafa verið myrtir í Svíþjóð á undanförnum tveimur árum. Í einu friðsælasta ríki heims. Ef þessir ungu menn hefðu verið ljóshærðir, hvítir og af sænskum uppruna langt aftur í aldir þá væri búið að kalla saman sérstakt áfallaráð og ríkisstjórnin hefði gripið til sérstakra aðgerða. Nei ekkert slíkt. Það er varla greint frá morðunum í fréttum lengur og hvergi minnst á hverjir þetta eru. Heldur er málið afgreitt sem glæpagengjastríð, þetta séu innflytjendur að drepa hver annan. Þannig að málið er afgreitt og fólk hugsar: Æ, leyfum þessum glæpamönnum að skjóta hver annan. En við getum ekki afgreitt málið á svo einfaldan hátt. Þetta eru í sumum tilvikum börn sem eru búsett í hverfum þar sem fátækustu íbúar landsins búa. Börn sem eru dæmd út frá bakgrunni sínum og þar sem rætur þeirra eru frá öðrum löndum þá eru þau ekki lengur börn heldur ungir karlar sem þjóðfélagið óttast. Umræðan er alltaf um karla, glæpamenn eða útlendinga. Ekki um saklaus börn. Það er talað við lögreglumenn og afbrotafræðinga um morðin en aldrei konur. Hvað með mæður þeirra? Hvað með konur í þessum hverfum? En þegar stúlka sem heitir Lisa Holm er myrt þá fer allt þjóðfélagið á hliðina. Það var skelfilegt mál en er ekki jafn skelfilegt þegar fimmtán ára gamall piltur sem heitir útlendu nafni er myrtur? Er réttur hans og samúð samfélagsins annar en Lisu? Nei hann er sviptur mennskunni. 

Ég velti þessu mikið fyrir mér. Hvers vegna syrgjum við suma meira en aðra? Hvers vegna grétum við með Lisu Holm? Ég vissi allt um hana, jafnvel hvað hún borðaði áður en hún hvarf. Hvað gæludýr hennar hét. En ég veit ekkert um allan þennan fjölda drengja og manna sem hafa verið skotnir til bana í Svíþjóð undanfarin ár. En hverjir þekkja þeirra sögu? Jú mæður þeirra. Konur sem vita sem er að drengirnir þeirra eiga engan möguleika á að losna úr þeim veruleika sem þeir búa við í eitthvað annað og betra. Því samfélagið er löngu búið að stimpla þá sem íbúa í hverfum sem ekki sé óhætt að fara inn í,“ segir Alexandra Pascalidou sem var aðalfyrirlesari á norrænni málstofu hér á landi í síðustu viku. 

Alexandra Pascalidou hefur komið víða við en hún stofnaði meðal annars til nýrra alþjóðlegra bókmenntaverðlauna í kjölfar þess að bókmenntaverðlaun Nóbels voru ekki afhent í fyrra vegna kynlífshneykslis þeim tengdu.

Frétt Guardian um verðlaunin

mbl.is