Segir bankann hafa miðlað lánasögunni

Sævar Þór segir bankann hafa deilt upplýsingum um fyrnd lán …
Sævar Þór segir bankann hafa deilt upplýsingum um fyrnd lán umbjóðanda síns. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Það var bankinn sem miðlaði upplýsingum um lánasöguna úr viðskiptamannakerfi sínu, segir Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður í yfirlýsingu sem hann sendir frá sér vegna fréttar sem birt var í kvöldfréttum Stöðvar 2 á sunnudag. Slíkt sé bankanum ekki heimilt að gera og málið verði sent Persónuvernd til meðferðar.

Því var haldið fram í fréttinni að Cred­it­in­fo reki miðlæg­an grunn um lána­sögu ein­stak­linga og birti einnig fyrndar kröfur á vanskilaskrá. Creditinfo hafnaði þessu í fréttatilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér fyrr í dag og í yfirlýsingu sem Sævar Þór sendi frá sér fyrir skemmstu segir hann að í tilliti umbjóðanda síns sé búið að afskrá öll vanskil af vanskilaskrá hvað hann varðar, enda hafi ekki öðru verið haldið fram.

 „Viðkomandi banki hefur aftur á móti deilt upplýsingum um fyrnd lán umbjóðanda míns, þar með talið vanskilaupplýsingum úr viðskiptamannakerfi sínu. Bankanum er heimilt að halda þeim upplýsingum til haga í sínu eigin viðskiptamannakerfi en ekki að miðla þeim að mati umbjóðanda míns innan kerfis Creditinfo. Aðrir bankar hafa ekki gert það með þessum hætti í máli umbjóðanda míns. Gögn í máli umbjóðanda míns staðfesta þetta,“ segir Sævar Þór og ítrekar að málið verði sent Persónuvernd til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert