Þarf að flytja kýr að Dettifossi?

Dettifoss er ein helsta náttúruperla Íslands, vatnsmesti foss Evrópu. Hann ...
Dettifoss er ein helsta náttúruperla Íslands, vatnsmesti foss Evrópu. Hann er óaðgengilegur á veturna. mbl.is/RAX

Forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi eru nú að velta fyrir sér hver eigi að fara með kýr upp að Dettifossi svo mokað verði fyrir mjólkurbílinn. Þó að þetta sé meira í gríni sagt en alvöru er það ekki ásættanlegt fyrir ferðaþjónustuna að vegurinn að einni mestu náttúruperlu Íslands sé lokaður mánuðum saman yfir vetrartímann. „Vegagerðin eins og aðrar stofnanir landsins þarf að breytast með breyttu samfélagi. Við erum enn þá að moka fyrir mjólkurbílinn en ekki fyrir ferðamanninn. Hvaða rugl er það? Í einlægni sagt. Ég veit að þetta tekur tíma en þetta þarf að gerast aðeins hraðar.“

„Í dag eru þrjár milljónir manna að þvælast um vegakerfið, ekki 350 þúsund,“ benti Jóhannes á. „Það veldur auknu álagi en kannski öðruvísi álagi en margir halda. Fimmtíu tonna trukkarnir slíta vegunum sjálfum meira en lítill Yaris, á við tíu þúsund slíka skilst mér. En [fjöldi ferðamanna] veldur hins vegar álagi í umferðinni og meiri áhættu.“

Sturlun að hafa einbreiðar brýr

Jóhannes sagði það mat Samtaka ferðaþjónustunnar að leggja þurfi miklu meira fjármagn til Vegagerðarinnar, tugi milljarða vanti til fjárfestinga í viðhaldi og nýframkvæmdum í vegakerfinu. „Þetta eru miklir peningar,“ sagði Jóhannes en að uppsöfnuð viðhaldsþörf ætti sér skýringar. „Annars vegar vorum við með tímabil sultar og niðurskurðar eftir hrun og hins vegar tímabil gríðarlegs uppgangs og álags sem þarf að mæta.“

Nefndi hann sérstaklega einbreiðar brýr og sagði frá samtali sem hann átti við bandarískan prófessor á ráðstefnu hér á landi síðasta sumar. „Hann þurfti að tala við mig í tuttugu mínútur um þessar einbreiðu brýr sem hann hafði orðið að aka eftir að hafa komið með ferjunni til Seyðisfjarðar. Það eina sem hann vildi tala um voru þessar einbreiðu brýr og hverslags sturlun það væri að vera með svona vegi.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónstunnar, á fundi Vegagerðarinnar í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhannes sagði að það væri þó ekki þannig að það væru aðeins hinir 350 þúsund Íslendingar sem væru að halda uppi vegakerfi fyrir þrjár milljónir ökumanna. „Ferðamennirnir taka gríðarlega stóran þátt í samgöngukerfinu hjá okkur. Bara þessar hugmyndir um veggjöld þær sýna að hugmyndin er sú hjá þeim sem eru að setja þetta fram að 40-50% af tekjum sem kæmu inn af veggjöldum kæmu frá ferðamönnum.“

Hann sagðist ekki þreytast á að minnast á að ferðamaðurinn væri einn mikilvægasti skattgreiðandi á Íslandi. Á nokkurra ára tímabili greiddu þeir að auki tíu milljarða í eldsneytisgjöld. „Þannig að framlög ferðamanna til vegakerfisins eru töluverð [...] Þeir eru ekki bara að valda álagi þeir eru að taka þátt í uppbyggingunni líka.“

Þekkja sumir illa til aðstæðna

Hann sagði að hvað forvarnir og fræðslu varðar væri ýmislegt gert en að bæta mætti þá þætti á ýmsum sviðum. Benti hann sérstaklega á Safe Travel-verkefnið, sem unnið er í samstarfi ferðaþjónustunnar og Landsbjargar, og ferðamenn væru duglegir að nýta. „En við þurfum að bæta í, því upplýsingar til ferðamanna skipta svo gríðarlega miklu máli. Það er ofboðslega misjafnt, eins og við vitum, hvað þetta ágæta fólk, þessir gestir okkar, þekkja til aðstæðna á Íslandi.“

Í því sambandi skipti eftirlit með t.d. ökuréttindum og ökutækum gríðarlega miklu máli og þurfi að skila því sem til er ætlast. Í dag væri þar víða pottur brotinn. Bílaleigum bæri samkvæmt lögum að kalla eftir ökuskírteinum, „en við vitum að í sumum ríkjum heims er kannski ekki mikið á bak við ökuskírteinið. Það hefur jafnvel komið fyrir að ferðamenn frá löndum þar sem töluð eru tungumál sem við ekki skiljum framvísi einhverjum skírteinum sem eru ekki endilega ökuskírteini og reyni þannig að komast fram hjá reglunum.“

Jóhannes sagði að fjárþörf lögreglu, til að sinna þessu eftirliti, væri gríðarlega mikil. „Vettvangseftirlit [lögreglu] þarf að vera betra, en til þess þarf einfaldlega mannafla og fjármagn.“

Málið snerti líka þá þörf á að skapa jákvæða hvata meðal ferðaþjónustufyrirtækja í réttar áttir, þannig að bílaleigur fjárfesti t.d. í nýjum bílum sem eru öruggari en þeir eldri. Endurnýjun bílaleiga sem eru með 4.000 bíla þyrfti að vera þannig að á hverju ári væru keyptir um þúsund bílar og þúsund bílar seldir. „Það er að segja að fjórðungur bílaflotans uppfærðist á hverju ári.“

En þannig er ekki staðan hjá íslenskum bílaleigum í dag. Búið sé að fella niður vörugjaldaívilnun sem bílaleigurnar höfðu sem þýði að rekstrarlega eigi þær einfaldlega ekki möguleika á svo mikilli endurnýjun. „Þannig að þetta endurnýjunarhlutfall hefur fallið sem þýðir að þetta ár er bara „out“ í þessari uppfærslu. Þannig að að stórum hluta munu þessi nýjustu öryggistæki ekki koma inn í flotann á þessu ári.“

Dettifoss óaðgengilegur

Jóhannes nefndi í lok erindis síns að hann talaði vart við ferðaþjónustuaðila út á landi öðruvísi en að þeir kvörtuðu undan þjónustu á vegum. Hann ítrekaði að samstarf Vegagerðar og Samtaka ferðaþjónustunnar væri almennt gott, en það þýðir ekki að það megi ekki bæta.“ Sagði hann eina dæmisögu máli sínu til stuðnings:

„Dettifoss er ein stærsta perlan í ferðaþjónustu á Íslandi, aflmesti foss Evrópu, foss sem ótrúlegur fjöldi ferðamanna vill komast að og sjá.“ Hins vegar væri vegurinn vestan megin að fossinum mokaður samkvæmt G-reglu í bókum Vegagerðarinnar, tvisvar í viku að vori og hausti en ekkert yfir veturinn. „Þetta getur búið til þær aðstæður að menn reyni að dröslast þarna um hvort eð er og [þurfi] útköll björgunarsveita. Og þetta verður til þess að það er ekki hægt að bjóða upp á Dettifoss sem áfangastað yfir veturinn. Þannig að við erum búin að taka þarna úr sambandi helsta aðdráttaraflið á Norðurlandi. Það er bara einifaldlega það sem gerist.“

Hann sagði að vissulega þurfi að bæta veginn, gera hann þannig úr garði að hægt sé að þjónusta hann yfir vetrarmánuðina. „Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi eru nú að velta fyrir sér hver þeirra eigi að fara með kýr upp að Dettifossi til að það verði mokað fyrir mjólkurbílnum. Vegagerðin eins og aðrar stofnanir landsins þarf að breytast með breytingu samfélagsins. Við erum enn þá að moka fyrir mjólkurbílinn en ekki fyrir ferðamanninn. Hvaða rugl er það? Í einlægni sagt. Ég veit að þetta tekur tíma en þetta þarf að gerast aðeins hraðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina