Tíndu 22 tonn af lambahornum eftir bílveltu

Björgunarsveitarmenn úr sveitinni Heimamönnum handtíndu 22 tonn af lambahornum úr …
Björgunarsveitarmenn úr sveitinni Heimamönnum handtíndu 22 tonn af lambahornum úr farmi vörubíls sem valt á hliðina í Gufufirði á föstudag. Ljósmynd/Samsett/Facebook

Björgunarsveitin Heimamenn á Reykhólum fékk frekar óhefðbundið útkall í gær þegar liðsmenn sveitarinnar voru fengnir til að handtína 22 tonn af lambahornum sem voru um borð í flutningabíl sem valt á hliðina í Gufufirði á föstudag. Tæma þurfti hornin úr bílnum áður en hann var réttur við.

Í færslu á Facebook-síðu Heimamanna segir að vanda hafi þurft til verks, meðal annars með tilliti til búfjársjúkdóma, þar sem hornin eru frá öðrum landshlutum. Hornin voru á leið í vinnslu á Tálknafjörð þar sem gera átti úr þeim gæludýrafóður.

Þegar mest var voru 12 meðlimir björgunarsveitarinnar að störfum. Þeir fyrstu voru byrjaðir fyrir hádegi og þeir síðustu komu heim eftir 4 í nótt,“ segir í færslu Heimamanna. Verkið var seinlegt og erfitt og aðgengi ekki gott. „Með sameinuðum kröftum sjálfboðaliða hafðist verkið án vandræða og lögðu hornin af stað á áfangastað í nótt,“ segir jafnframt í færslunni og þakka Heimamenn öllum sem hjálpuðu við verkið.

Í frétt á Reykhólavefnum kemur fram að þetta er annar flutningabíllinn frá áramótum sem veltur á þessum kafla, frá slitlagsenda sunnan við Skálanes og að Gufudal. Á síðasta ári fóru 11 bílar út af á þessum kafla. Engin slys hafa orðið á fólki vegna þessa en eignatjón var mikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert