75 brýr = 3.000 skilti

Vegagerðin vinnur stöðugt að því að greina slysastaði og lagfæra. …
Vegagerðin vinnur stöðugt að því að greina slysastaði og lagfæra. Þannig hafa öryggissvæði við marga vegi verið bætt svo fari bíll eða rúta út af sé minni hætta á alvarlegu slysi. Myndin er tekin á Hellisheiði.

Umferð bíla um suðurströnd Íslands er farin að nálgast þá sem fer norður í land. Munurinn á þessum leiðum felst hins vegar m.a. í því að á norðurleiðinni er enga einbreiða brú lengur að finna en á Suðurlandi eru þær fjölmargar. Vegagerðin hefur ákveðið að yfirfara hámarkshraða á þjóðvegum og þegar hefur verið ákveðið að lækka hann við einbreiðu brýrnar. Áður en af því verður þarf að koma tæplega fjörutíu umferðarmerkjum upp við hverja og eina þeirra. Þær eru 75 talsins og því verða merkin um þrjúþúsund. „Það er eins með þetta eins og annað, öllu því sem bætt er við þarf að fylgja fjármagn,“ sagði Einar Pálsson, forstöðumaður þjónustudeildar Vegagerðarinnar, á fundi um umferðaröryggismál í gærmorgun. „Þetta kostar sitt en er hverrar krónu virði ef við getum forðað því að slys verði,“ sagði Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar.

Flest alvarleg slys og banaslys verða vegna útafaksturs.
Flest alvarleg slys og banaslys verða vegna útafaksturs.

Vegur og umhverfi hans er meðvirkandi orsök í um þriðjungi allra umferðarslysa samkvæmt erlendum rannsóknum, upplýsti Auður Þóra gesti fundarins um. Í samgönguáætlun er sett fram það markmið að Ísland verði meðal fremstu Evrópuþjóða hvað varðar fjölda látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa. Á árunum 2013-2017 var meðaltal fyrir Ísland 4,2 á meðan þær þjóðir sem stóðu sig best voru undir þremur, þ.e. Svíþjóð og Bretland. „En núna hefur sigið á ógæfuhliðina,“ sagði Auður. „Á síðasta ári er þessi tala yfir fimm hjá okkur en þegar banaslys eru annars vegar verður alltaf að líta á nokkurra ára tímabil.“ Lestu meira

Þá er það markmið að látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 5% á ári miðað við meðaltal áranna 2013-2017 þegar þau voru 360 talsins.

Í erindi Auðar kom fram að útafakstur er langalgengasta slysategundin. Um 50% alvarlegra slysa og banaslysa á þjóðvegum í dreifbýli verða við það að menn aka út af vegi. „Það er ástæðan fyrir því að við leggjum mikla áherslu á að lagfæra umhverfi vega,“ sagði hún. Þegar hins vegar kemur að banaslysum eingöngu er það framanáakstur sem veldur þeim flestum eða í um 40% tilvika.

Stökkbreyting í umferðinni

Auður fjallaði einnig um áskoranir í tengslum við fjölgun ferðamanna og bar saman þróun umferðar um tvo vegi; annars vegar Holtavörðuheiði og hins vegar við Kvísker í grennd við Jökulsárlón. „Umferðin við Kvísker var fjórum sinnum meiri árið 2017 en 2010,“ sagði hún. Vetrardagsumferð um veginn er svo sjö sinnum meiri nú en árið 2010. „Þannig að umferðin um suðurströndina er farin að nálgast umferðina á leiðinni norður í land. Þetta hefði manni nú þótt saga til næsta bæjar fyrir nokkrum árum,“ sagði hún og bætti við að það hafi engar einbreiðar brýr verið á norðurleiðinni frá árinu 2008. Lestu meira

Auður sýndi fundargestum mynd (sjá hér að ofan) af þeim stöðum þar sem ferðamenn vilja stoppa og taka myndir vítt og breitt við hringveginn og unnin var af starfsmanni Vegagerðarinnar í samvinnu við hópferðafyrirtæki. „Það eru ansi margir staðir sem eru vinsælir,“ sagði hún, „og þarna þurfum við virkilega að taka okkur á. Við þurfum að fjölga þeim stöðum þar sem hægt er að stoppa á öruggan hátt.“ Á allt of mörgum þessara staða væri hættulegt að stoppa og líkti Auður þeim við „rússneska rúllettu“.

Almenn ánægja með lokanir

Einar, forstöðumaður þjónustudeildar Vegagerðarinnar, fór í erindi sínu yfir forsendur mismunandi þjónustustiga stofnunarinnar á vegum landsins og hvernig aukinn umferðarþungi stýrði flokkuninni. Nefndi hann að á sumum svæðum á Suðurlandi, m.a. milli Selfoss og Hellu, væri umferðin að verða það mikil að hún fari upp í efsta þjónustuflokk. Enn er þó öll leiðin frá Selfossi og að Jökulsárlóni í þjónustuflokki 2.

Fjölmennt var á fundi Vegagerðarinnar um umferðaröryggismál í gærmorgun.
Fjölmennt var á fundi Vegagerðarinnar um umferðaröryggismál í gærmorgun. mbl.is/Árni Sæberg

Aukin umferð kallar á nýjar leiðir í umferðaröryggismálum og benti hann á að síðustu ár hefði það færst í vöxt að vegum væri lokað þegar færð spillist. „Þetta er eitt af því sem við höfum gert og ég tel að ánægja sé með í samfélaginu. Ég vildi gjarnan vera laus við þennan kaleik, við fáum að sjálfsögðu kvartanir út af þessu. Við erum alltaf að verða betri í því að opna, erum þegar ágæt í að loka. Umferðin og aðstæður eru oft svo varasamar fyrir óvana vegfarendur. Því neyðumst við til að loka þó að aðrir vegfarendur gætu alveg klárað sig, einfaldlega af því að umferðarmagnið er svo mikið.“

Enn betur þarf þó að upplýsa ferðamenn, koma til þeirra skilaboðum á ensku til að mynda. Þá þarf einnig að skýra betur út hvað viðvaranir þýða, t.d. hvað það þýðir fyrir ökumanninn að vindur sé 10 m/s svo dæmi sé tekið og hvaða áhrif veðurhæð hefur á bíl hans.

Á þessu korti má sjá þá staði sem ferðamenn vilja …
Á þessu korti má sjá þá staði sem ferðamenn vilja stoppa á við hringveginn til að taka myndir. Á mörgum stöðum skapast hætta af slíkum stoppum.

Vilja lækka hámarkshraða frekar en hækka

Síðustu vikur hefur verið vindasamt og hvað eftir annað hafa rútur fokið út af vegum. Til eru ákveðin viðmið um hvað mikið álag vegna vinds þurfi til að það gerist en Einar vonast til þess að fjármagn fáist til að rannsaka þetta betur svo útbúa megi stuðla fyrir ólík farartæki við mismunandi aðstæður.

Í umræðum að erindum loknum bætti Auður við að Vegagerðin væri ósammála því að hækka ætti hámarkshraða flutningabíla og annarra stærri bíla upp í 90 km/klst. til að jafna umferðarhraða en þeir mega nú aka að hámarki á 80 kílómetra hraða á klukkustund. Sagði hún Vegagerðina hafa lagt til í umsögn um frumvarp að nýjum umferðarlögum, að hámarkshraði annarra yrði frekar lækkaður í 80 km hraða svo að öll umferð yrði á sama hraða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert