Eru að bregðast við með viðeigandi hætti

„Við höfum úrræði um leyfissviptingu ef að forsendur eru ekki ...
„Við höfum úrræði um leyfissviptingu ef að forsendur eru ekki lengur fyrir hendi,“ segir samskiptastjóri Samgöngustofu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum úrræði um leyfissviptingu ef að forsendur eru ekki lengur fyrir hendi. Við förum eftir meðal annars stjórnsýslulögum og þar er gert ráð fyrir rannsóknarskyldu og andmælarétti og öðru. Við erum að bregðast við með viðeigandi hætti,“ segir Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, í samtali við mbl.is, spurð út í það hvort Samgöngustofa vinni að því að svipta einhverja bílaleigu starfsleyfi sínu.

Þórhildur getur ekki tjáð sig um einstök mál, en nú er rúm vika frá því að bílaleigan Procar viðurkenndi umfangsmikið svindl, þar sem átt var við kílómetrastöðu í bílum og þeir seldir til grunlausra neytenda.

Bílaleigur starfa samkvæmt starfsleyfum frá Samgöngustofu. Þær þurfa að uppfylla ýmis skilyrði til þess að fá leyfið og einnig að standa við ákveðnar skyldur til þess að halda því. Kveðið er á um skyldurnar í 6. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja.

Þar segir meðal annars að leyfishafi skuli „í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða“. Færa má margvísleg rök fyrir því að Procar hafi brotið gegn þessari skyldu sinni, en einnig kemur fram í lögunum að leyfishafinn beri ábyrgð á „verkum starfsmanna sinna við leigu ökutækja sem væru þau verk hans sjálfs“.

Fréttin hefur verið uppfærð: Ábending barst frá Samgöngustofu um að blaðamaður hefði oftúlkað orð Þórhildar með fyrri fyrirsögn fréttarinnar, sem var: „Vinna að niðurfellingu starfsleyfis“.

Samgöngustofa „vinnur ekki“ að niðurfellingu starfsleyfis bílaleigu, heldur hefur það úrræði. Stofnunin starfar eftir stjórnsýslulögum, sem kveða bæði á um rannsóknarskyldu og andmælarétt, en gefur sér ekki niðurstöðu fyrirfram. Beðist er velvirðingar á þessu.

Bílaleigur starfa samkvæmt starfsleyfum frá Samgöngustofu.
Bílaleigur starfa samkvæmt starfsleyfum frá Samgöngustofu. mbl.is/​Hari
mbl.is