Búið að opna Hellisheiði

Ekkert vit er að leggja í ferðalög án þess að …
Ekkert vit er að leggja í ferðalög án þess að kanna aðstæður fyrst. mbl.is/Styrmir Kári

Búið er að opna fyrir umferð um Hellisheiði að nýju en hún var lokuð um tíma í nótt. Framan af degi gengur í austanstorm með úrkomu yfir landið frá suðri til norðurs. Gular viðvaranir  eru í gildi á öllu landinu.

Mjög hvasst er víða og slær í yfir 30 metra á sekúndu á Reykjanesbrautinni og Grindavíkurvegi. Mælir Vegagerðarinnar við Blikadalsá sýnir að þar hefur farið yfir 40 metra í hviðum í nótt og 45 metra undir Hafnarfjalli. Undir Eyjafjöllum er bálhvasst og eins í uppsveitum Árnessýslu.

Í dag er spáð austan 15-25 m/s, hvassast syðst. Rigning á láglendi, en víða snjókoma eða slydda um norðanvert landið. Lægir með deginum, fyrst sunnan til, suðlæg átt 5-13 síðdegis og úrkomulítið. Hiti frá frostmarki á Norðausturlandi, upp í 7 stig syðst. 

Hvessir aftur í kvöld og þykknar upp, fyrst sunnanlands. Suðaustan 18-23 og rigning í nótt. Sunnan 10-18 m/s fyrir hádegi á morgun, hvassast vestast á landinu og dregur úr úrkomu, en lengst af þurrt á Norður- og Austurlandi. Heldur hlýrra á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert