Íslendingi bjargað á Table-fjalli

Table-fjall.
Table-fjall. Wikipedia/Danie van der Merwe

Íslenskum ferðamanni var bjargað úr sjálfheldu í Table-fjalli við Höfðaborg í Suður-Afríku í vikunni og tóku björgunaraðgerðirnar 13 klukkustundir. Ungur Íslendingur lést í fjallinu fyrir tveimur árum. 

Í fréttum suðurafrískra fjölmiðla kemur fram að tilkynning hafi borist til Neyðarlínunnar síðdegis á mánudag en þá höfðu heyrst neyðaróp frá fjallinu. Björgunin tók alla nóttina en ekki var hægt að nota þyrlur við björgunaraðgerðirnar vegna mikils roks á fjallinu. Fram kemur að um 32 ára gamlan íslenskan ferðamann sé að ræða.

RÚV greindi fyrst frá björguninni.

Samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitinni, Wilderness Search And Rescue (WSAR), hafði íbúi í nágrenni fjallsins samband eftir að hafa heyrt einhvern hrópa á hjálp frá fjallinu. Björgunaraðgerðir hófust klukkan 17:22 að staðartíma á mánudag og komust fyrstu björgunarsveitarmennirnir að manninum klukkan 01:48 um nóttina. 

Segir á vef WSAR að Íslendingurinn hafi verið einstaklega heppinn að lifa af 20 metra fall og að hafa lent á syllu sem er aðeins stærri en tvíbreitt rúm. Ef hann hefði ekki stöðvast þar hefði beðið hans áttatíu metra fall til viðbótar.

Vegna roksins heyrðist hróp hans eftir hjálp í hverfið fyrir neðan. Snjallsími mannsins var í lagi og næg hleðsla á honum og gat hann einnig notað símann og leiðbeint björgunarsveitarfólkinu við að komast á staðinn. Maðurinn slapp án alvarlegra áverka.

Mjög erfiðar aðstæður voru til björgunar og settu björgunarsveitarmenn sig í töluverða hættu við björgunina.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert