Málið litið grafalvarlegum augum

Flestir grunnskólar landsins nota skólaupplýsingakerfið Mentor og er fyrir vikið …
Flestir grunnskólar landsins nota skólaupplýsingakerfið Mentor og er fyrir vikið mjög mikið magn upplýsinga um nemendur skólanna að finna þar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við sem samtök foreldra lítum þetta grafalvarlegum augum. Þetta er eitthvað sem verður bara að vera í lagi. Það er ekki hægt að gefa neinn afslátt af því,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, í samtali við mbl.is spurð um mál þar sem kom upp fyrr í vikunnar þar sem í ljós kom að einstaklingur hafði safnað kennitölum og forsíðumyndum 422 nemenda í 96 grunnskólum í landinu úr skólaupplýsingakerfinu Mentor.

Hrefna segir að þegar svona mál komi upp bregði fólki eðlilega og velti því fyrir sér hvort þetta hafi beinst gegn barni viðkomandi og hvort öruggt sé að einungis hafi verið um að ræða mynd og kennitölu. Sem séu þess utan auðvitað upplýsingar sem eiga ekkert að fara út úr kerfinu. Hrefna segir Heimil og skóla fylgjast vel með málinu og væntanlega eigi það sama við um skólayfirvöld, sveitarfélögin og forsvarsmenn Infomentor sem reki kerfið.

Verður að koma í veg fyrir að þetta sé hægt

„Ég held að þetta sé annars eitthvað sem við þurfum að horfast betur í augu við. Eftir því sem sífellt meiri upplýsingar færast inn í tölvurnar og glæpirnir færast að sama skapi meira þangað þá er mjög mikilvægt að tryggja öryggi upplýsinganna,“ segir Hrefna. Þarna sé um að ræða upplýsingar um börn og huga þurfi sérstaklega vel að öryggi slíkra upplýsinga. Þess utan sé alltaf spurning hversu mikið af upplýsingum sé rétt að setja inn í slík kerfi.

Vísar Hrefna þar ekki aðeins til núverandi nemenda grunnskóla heldur einnig þeirra sem lokið hafa námi sínu. Eðlilega vakni spurning um það hver sé tilgangurinn með því að geyma slíkar upplýsingar um aldur og ævi. Rétt sé að hafa í huga í því sambandi að flestir grunnskólar landsins noti Mentor og fyrir vikið sé um að ræða gríðarlegt magn af upplýsingum í kerfinu. Fleiri spurningar vakni óhjákvæmilega vegna þessa máls.

„Hvernig vitum við að það fóru ekki fleiri upplýsingar út og hvernig verður komið í veg fyrir að það verði ekki sóttar fleiri upplýsingar? Til dæmis ef einhver er með mynd af barni og heimilisfang þess? Það eru ekki upplýsingar sem foreldrar vilja að einhver óviðkomandi hafi. Þannig að þetta er bara mjög alvarlegt mál sem þarf að skoða rosalega vel og koma í veg fyrir það í framhaldinu að þetta sé hægt,“ segir Hrefna að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert