Móðir Nöru Walker óskar eftir náðun

Afplánun Walker hófst í fangelsinu á Hólmsheiðinni í dag og …
Afplánun Walker hófst í fangelsinu á Hólmsheiðinni í dag og mótmælendur fyrir utan með límband fyrir munni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Móðir ástralskrar konu sem var dæmd í Landsrétti fyrir að hafa bitið bút úr tungu eiginmanns síns hefur skrifað bréf til náðunarnefndar dómsmálaráðuneytisins þar sem hún óskar eftir því að dóttir hennar verði náðuð.

Dóttir hennar, Nara Walker, var dæmd í 18 mánaða fangelsi í desember, þar af 15 skilorðsbundna, fyrir að hafa bitið 2,5 sentimetra bút af tungu mannsins og fyrir að hafa ráðist á aðra konu.

Mótmælendur koma saman á Hólmsheiðinni.
Mótmælendur koma saman á Hólmsheiðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mótmæli á Hólmsheiði

Afplánun hennar hefst í fangelsinu á Hólmsheiði í dag og voru af því tilefni haldin mótmæli þar fyrir utan. Mótmælendur voru hvattir til að hafa límband fyrir munni „sem er táknrænt fyrir raddleysi kvenna í réttarkerfinu,“ að því er segir í Facebook-viðburði. 

„Dóttir mín hefur nú þegar barist í fimmtán mánuði til að sanna að hún hafi gert þetta í sjálfsvörn vegna alvarlegs heimilisofbeldis, sem því miður varð til þess að fyrrverandi eiginmaður hennar meiddist,“ segir í bréfi móður hennar, Jane Walker, sem mbl.is hefur undir höndum.

„Hún hefur þegar verið í farbanni í yfir fimmtán mánuði, fjarri fjölskyldu sinni og vinum. Vegna þess þjáist hún af aukinni áfallastreituröskun. Er þetta ekki næg refsing fyrir hana?“

Aðstandendur Nöru Walker hafa einnig beðið forseta Íslands um að veita henni sakaruppgjöf. 

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is/Hari

Hefur áhyggjur af geðheilsu dóttur sinnar

Jane Walker segir það jafnframt grimma ákvörðun að senda hana í fangelsi með hámarksöryggisgæslu. „Ég hef áhyggjur af geðheilsu hennar og möguleikum hennar á að ná aftur sínum fyrri styrk. Mánuðirnir fimmtán sem hún hefur verið í haldi hafa valdið henni tilfinningalegum og fjárhagslegum skaða.“

Jane Walker rekur því næst framgöngu málsins í íslenska dómskerfinu og greinir meðal annars frá ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hálfu eiginmannsins. Þrátt fyrir það hafi sjálfsvörn hennar ekki verið tekin gild þegar kveðnir voru upp dómar í Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti, þar sem dómur yfir henni var þyngdur.  

Kom þar fram að ekki verði fallist á með henni að um neyðarvörn hafi verið að ræða. Hún var dæmd fyrir stórfellt ofbeldisbrot í nánu sambandi.

Límbandið fyrir munninum á að vera táknrænt fyrir raddleysi kvenna …
Límbandið fyrir munninum á að vera táknrænt fyrir raddleysi kvenna í réttarkerfinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur trú á dómskerfinu

Þrátt fyrir að hafa orðið fyrir vonbrigðum með dóminn kveðst Jane hafa mikla trú á íslensku dómskerfi vegna þeirra réttinda sem konur njóti á Íslandi og jafnréttis kynjanna hérlendis. Bætir hún samt við að hún hafi komist að því að íslenska dómskerfið hafi átt í vandamálum þegar komi að málum tengdum heimilisofbeldi.

Í sálfræðimati Nöru, sem mbl.is hefur einnig undir höndum, kemur fram að hún glími við ýmis áföll sem hún hafi orðið fyrir í lífi sínu allt frá barnæsku, meðal annars vegna meiðsla sem hún hafi valdið öðrum og meiðsla sem hún hafi orðið fyrir af hálfu eiginmanns hennar fyrrverandi.

Þar er staðfest að hún þjáist af áfallastreituröskun og nefnt að henni finnist hún hafa verið beitt órétti af íslenska dómskerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert