Sjálfstæðisflokkurinn með 22,7%

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, kynnti skattatillögur ríkisstjórnarinnar í …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, kynnti skattatillögur ríkisstjórnarinnar í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með stuðning 22,7% landsmanna í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-15. febrúar. Miðflokkurinn mælist með 6,1% fylgi en flokkurinn fékk 10,9% atkvæða í síðustu þingkosningum. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,2% í kosningunum 2017.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins jókst um tæpt prósentustig frá síðustu mælingu sem lauk 28. janúar. Samfylkingin mældist með 15,9% fylgi, sem er tæplega hálfu prósentustigi meira en flokkurinn mældist með í síðustu könnun. Samfylkingin fékk 12,1% í kosningunum 2017. Fylgi Framsóknarflokksins jókst um tæpt prósentustig og mældist nú 13,5%. Flokkurinn fékk 10,7% atkvæða í kosningum. 

Þá minnkaði fylgi Vinstri grænna um rúmlega eitt prósentustig (voru með 16,9% í kosningum en eru með 11,1% nú). Fylgi Pírata minnkaði um rúmlega eitt og hálft prósentustig (fengu 9,2% í kosningum en eru með 10,4% nú) og fylgi Miðflokksins minnkaði um rúmlega tvö prósentustig frá síðustu mælingum.

Stuðningur við ríkisstjórnina jókst lítillega en 42,8% sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 41,5% í síðustu mælingu.

Fylgi Vinstri grænna mældist nú 11,1% og mældist 12,2% í síðustu könnun. 
Fylgi Pírata mældist nú 10,4% og mældist 12,0% í síðustu könnun.
Fylgi Viðreisnar mældist nú 8,1% og mældist 9,2% í síðustu könnun. (6,7% í kosningum)
Fylgi Flokks fólksins mældist nú 6,9% og mældist 5,4% í síðustu könnun. (6,9% í kosningum)
Fylgi Miðflokksins mældist nú 6,1% og mældist 8,3% í síðustu könnun.
Fylgi annarra flokka mældist 5,2% samanlagt.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert