Skaplegt veður síðdegis

Spáð er hlýindum á morgun.
Spáð er hlýindum á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands
Þrátt fyrir að dragi úr austanstorminum sem geisað hefur í nótt á landinu öllu eru gular viðvaranir enn í gildi. Síðan er djúp 940 mb víðáttumikil lægð langt suður í hafi og nálgast hún Grænland. Áhrifa hennar mun gæta á Íslandi.
Mjög hvasst er við Hafnarfjall og inni í Hvalfirði en vegir að verða auðir við Faxaflóa. Verið er að hreinsa vegi þar sem þess þarf, segir í færslu Vegagerðarinnar á Twitter. Snjóþekja eða krap á fjallvegum og á norðanverðu Snæfellsnesi, raunar þungfært vestan Grundarfjarðar. 
Enn er hvasst á Suðvesturlandi. Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum en krap á Mosfellsheiði.

„Það dregur úr austanstorminum sem hefur geisað í nótt með deginum, en gular viðvaranir eru enn þá í gildi sökum hans. Það lægir smám saman, fyrst á Reykjanesi, en búast má við hvössum vindi og slyddu eða snjókomu norðaustan til á landinu fram yfir hádegi. Síðdegis verður komið skaplegasta veður, suðlæg átt 5-13 m/s og úrkomulítið. 

Djúp 940 mb víðáttumikil lægð er langt suður í hafi og nálgast hún Grænland, það er mesti veðurhamurinn nær ekki hingað til lands. Í nótt hvessir þó aftur sökum þessarar lægðar og fer að rigna, hvass vindur og sums staðar í stormur, en hægari vindur og lengst af þurrt norðaustan til á landinu. Dregur svo úr vind sunnanlands snemma í fyrramálið og hlýnar einnig meira, hiti 4 til 9 stig á morgun,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Veðrið næstu daga

Austan 15-25 m/s, hvassast syðst. Rigning á láglendi, en víða snjókoma eða slydda um norðanvert landið. Lægir með deginum, fyrst sunnan til, suðlæg átt 5-13 síðdegis og úrkomulítið. 

Hiti frá frostmarki á Norðausturlandi, upp í 7 stig syðst.
Hvessir aftur í kvöld og þykknar upp, fyrst sunnanlands. Suðaustan 18-23 og rigning í nótt. Sunnan 10-18 m/s fyrir hádegi á morgun, hvassast vestast á landinu og dregur úr úrkomu, en lengst af þurrt á Norður- og Austurlandi. Heldur hlýrra á morgun.

Á fimmtudag:
Minnkandi suðaustanátt, sunnan 10-18 m/s fyrir hádegi, hvassast vestast á landinu. Þurrt að mestu á Norður- og Austurlandi, en víða rigning annars staðar, einkum framan af degi. Hiti 4 til 9 stig. 

Á föstudag:
Austlæg eða breytileg átt, 8-15 m/s og víða rigning, en hægari og þurrt norðvestan til á landinu. Hiti 1 til 6 stig. 

Á laugardag:
Hvöss suðlæg átt með rigningu, talsverð úrkoma sunnan til. Hiti 2 til 7 stig. Vestlægari um kvöldið með skúrum eða éljum og kólnar. 

Á sunnudag:
Sunnan og víða rigning, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 1 til 6 stig. 

Á mánudag og þriðjudag:
Útlit fyrir hvassa suðlæga átt og rigningu með köflum, en þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Hiti 2 til 7 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert