Elín og Kóngulær tilnefndar

Kristín Ómarsdóttir og Kristín Eiríksdóttir eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs …
Kristín Ómarsdóttir og Kristín Eiríksdóttir eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd. Ljósmynd/Samsett

Skáldsagan Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur og ljóðabókin Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt í Gunnarshúsi fyrir stundu.

Tilkynnt var um tilnefningarnar í Gunnarshúsi. Sofie Hermansen Eriksdatter, verkefnastjóri …
Tilkynnt var um tilnefningarnar í Gunnarshúsi. Sofie Hermansen Eriksdatter, verkefnastjóri Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, er þriðja frá hægri. mbl.is/Eggert

Landsbundnar dómnefndir tilnefna þetta árið samtals 13 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi 29. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur sem samsvara tæpum 6,4 milljónum ísl. kr. 

Frá hægri eru Kristín Eiríksdóttir og Hólmfríður Úa Matthíasdóttir, útgáfustjóri …
Frá hægri eru Kristín Eiríksdóttir og Hólmfríður Úa Matthíasdóttir, útgáfustjóri Forlagsins, sem gefur út báðar tilnefndu bækur ársins. mbl.is/Eggert

Frá Álandseyjum er tilnefnd skáldsagan Det finns inga monster eftir Liselott Willén.

Frá Danmörku eru tilnefnt smásagnasafnið Efter solen eftir Jonas Eika og skáldsagan de eftir Helle Helle.

Frá Finnlandi eru tilnefndar skáldsögurnar Tristania eftir Mariönnu Kurtto og Där musiken började eftir Lars Sund.

Frá Grænlandi er tilnefnd smásagna- og ljóðabókin Arpaatit qaqortut eftir Pivinnguaq Mørch.

Frá Noregi eru tilnefndar ljóðabókin Det er berre eit spørsmål om tid eftir Eldrid Lunden og Jeg lever et liv som ligner deres. En levnetsbeskrivelse eftir Jan Grue, en bókin er skilgreind sem sjálfsævisögulegur prósi.

Frá samíska málsvæðinu er tilnefnd ljóðabókin Ii dát leat dat eana eftir Ingu Ravna Eira.

Frá Svíþjóð eru tilnefndar ljóðabókin Nonsensprinsessans dagbok. En sjukskrivning eftir Isabellu Nilsson og skáldsagan Människan är den vackraste staden eftir Sami Said. 

Í umsögn íslensku dómnefndarinnar, sem í sitja Kristján Jóhann Jónsson, Kolbrún Bergþórsdóttir og Sunna Dís Másdóttir, segir um skáldsöguna Elín, ýmislegt: „Ríkjandi þemu í skáldskap Kristínar Eiríksdóttur eru þrá eftir ást og skilningi, baráttan við sambandsleysi, einmanaleiki, misnotkun, ofbeldi og óhugnaður. Skáldsagan Elín, ýmislegt er skýrt dæmi um þetta. Þar birtist öflug rödd ungrar konu í listrænum og markvissum texta.“

Um Kóngulær í sýningargluggum segir: „Í ljóðum Kristínar Ómarsdóttur lítur sakleysið út eins og skyrsletta á vegg, bréfið undir koddanum spyr: ertu þarna? Spegillinn handsamar mynd ljóðmælandans þegar hann greiðir morgunbleikt hárið, landdreymnar hafmeyjar stinga höfði upp úr sjónum, glerbrjóst eru auglýst og torgið snarað með sjóndeildarhringnum. Kristín Ómarsdóttir hefur alltaf reynt hressilega á þanþol tungumálsins. Frumlegar ljóðmyndir hennar eru óvæntar og stundum súrrealískar.“

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1962 og eru veitt fagurbókmenntaverki sem er samið á einu af norrænu tungumálunum. Það getur verið skáldsaga, leikverk eða ljóða-, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi. Markmiðið með verðlaununum er að vekja áhuga á bókmenntum og tungumálum grannþjóðanna sem og menningarlegri samkennd þeirra.

Skrifstofa beggja bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið til húsa í Norræna húsinu frá 2014. Náið samstarf skrifstofunnar við bókasafnið í Norræna húsinu skilar sér í því að allar tilnefndu bækur ársins voru aðgengilegar á frummálunum á bókasafninu í Norræna húsinu frá og með deginum í dag. Einnig eru allar vinningsbækurnar frá upphafi aðgengilegar til útláns á safninu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert