Lægð sem færir okkur storm

Kort/Veðurstofa Íslands

Næstu daga er spáð umhleypingum og geta veðrabrigði orðið ansi snörp. Því er mikilvægt að fylgjast vel með þróun veðurspáa og viðvarana, einkum vegna ferðalaga á milli landshluta eða framkvæmda, að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Djúp lægð er suðvestur af landinu og í morgunsárið færir hún hvassviðri eða storm á SV-vert landið. Það dregur þó úr vindinum þegar líður á daginn en svo óheppilega vill til að það er stórstreymt í dag og hefur það í för með sér aukinn öldugang á miðum og djúpum þar sem spáð er upp í 13 m háum öldum. Það eru ekki bara sjófarendur sem verða varir við áhrifin af lægðinni þar sem útlit er fyrir að öldugangur verði mikill við S- og V-ströndina síðdegis og fram á kvöld. 

Á morgun kemur ný lægð og með henni sunnanhvassviðri eða -stormur með rigningu en útlit er fyrir að næstu dagar einkennist af mildum suðlægum áttum og rigningu um S- og V-vert landið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Minnkandi suðaustanátt og rigning, sunnan 10-18 m/s með morgninum og stöku skúrir þegar kemur fram á daginn, en þurrt NA-til. Hiti 2 til 9 stig, mildast syðst. 
Austan 8-15 m/s í fyrramálið, en vaxandi sunnanátt eftir hádegi, hvassviðri eða stormur A-lands undir kvöld, annars hægari. Víða rigning á morgun, talsverð SA-til, en þurrt NV-lands fram á kvöld. Kólnar heldur fyrir norðan.

Á föstudag:

Austan 8-15 m/s í fyrstu, en vaxandi sunnanátt eftir hádegi, hvassviðri eða stormur undir kvöld. Víða rigning, talsverð SA-til, en lengst af þurrt NV-lands. Hiti 2 til 8 stig. 

Á laugardag:
Sunnan 13-20 m/s og rigning, mikil SA-til. Snýst í suðvestanátt síðdegis og bætir í vind með skúrum eða slydduéljum, en þurrt að kalla NA-lands. Kólnar í veðri. 

Á sunnudag:
Stíf suðaustlæg átt og byrjar aftur að rigna S- og V-til, annars þurrt að mestu. Hiti 1 til 6 stig. 

Á mánudag:
Suðaustlæg átt og þurrt að kalla, en rigning S-lands um kvöldið. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir áframhaldandi suðlægar áttir og rigningu, einkum S-til. Hiti 1 til 6 stig.

Greiðfært er á Suðvesturlandi en á Vesturlandi er greiðfært á öllum helstu leiðum en mjög hvasst í Hvalfirði og undir Hafnarfjalli. Hálkublettir eru í uppsveitum í Borgarfirði en hálka í Álftafirði. 

Vestfirðir: Greiðfært að mestu á láglendi en hálka eða hálkublettir á nokkrum fjallvegum. 

Norðurland: Hálkublettir eru á flestum útvegum í Húnavatnssýslum og á Öxnadalsheiði en greiðfært á öðrum leiðum. Á Norðausturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum.

Austurland: Víðast hvar hálka eða hálkublettir. Greiðfært er með ströndinni frá Breiðdalsvík og suður um. Enn vantar upplýsingar um nokkrar leiðir

Suðausturland: Aðalleiðir eru greiðfærar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert