1,6 milljónir fyrir ólögmæta handtöku

Maðurinn var ekki talinn hafa stuðlað sjálfur að handtöku eða …
Maðurinn var ekki talinn hafa stuðlað sjálfur að handtöku eða gæsluvarðhaldi. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur sneri í dag við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmdi karlmanni 1,6 milljónir króna í skaðabætur vegna handtöku og gæsluvarðhalds sem hann sætti í tvo sólarhringa auk einangrunar í sex sólarhringa.

Maðurinn var grunaður um kynferðisbrot gegn 16 ára gamalli stúlku í félagi við fjóra aðra menn. Síðar var hann sýknaður og krafði íslenska ríkið um skaðabætur vegna handtökunnar og gæsluvarðhaldsvistarinnar. Héraðsdómur sýknaði íslenska ríkið af kröfum hans þar sem talið var að hann hefði sjálfur stuðlað að þeim aðgerðum sem lögregla greip til auk þess sem hann hefði ekki kært úrskurðinn um gæsluvarðhaldið.

Maðurinn ekki óljós í skýrslutöku

Ríkið taldi að maðurinn hefði stuðlað að umræddum rannsóknaraðgerðum með með óljósum skýringum við yfirheyrslur, einkum um atvik málsins í upphafi og aðdraganda atburðarins. Í þessu sambandi var t.d. vísað til skýrslutöku af manninum þar sem hann var spurður út í upptöku af því er hann hafði samfarir við stúlkuna sem í hlut átti.

Í fyrstu sagðist maðurinn ekki hafa séð upptökuna en þegar yfirheyrandi hafi haft orð á því að maðurinn hafi þurft að hugsa sig um áður en hann svaraði, hafi hann svarað „Já. Ég sá upptökuna“. Í framhaldinu hafi hann greint frá því að „þeir strákarnir“ hefðu séð upptökuna og beðið þann sem bar ábyrgð á henni að eyða henni, sem hann hefði gert.

„Að þessum ummælum virtum verður ekki fallist á það með stefnda að atvik hafi að þessu leyti verið óljós við lok skýrslutökunnar,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.

Dvölin í fangaklefanum vakti kvíða

Landsréttur sagði að bótaábyrgð samkvæmt 1. mgr. 246. gr. laga um meðferð sakamála væri hlutlæg og að ríkið hefði ekki sýnt fram á að maðurinn hefði valdið eða stuðlað að þeim rannsóknaraðgerðum sem kröfur hans voru reistar á.

Meðal gagna í málinu var vottorð sálfræðings um manninn þar sem fram kom að dvöl í fangaklefa hafi vakið hjá honum kvíða og að hugur hans leitaði mikið til þeirrar lífsreynslu. Þóttu bætur hæfilega ákvarðaðar 1,6 milljónir króna og var íslenska ríkinu gert að greiða honum eina milljón króna í málskostnað fyrir Landsrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert