Ákærður fyrir að sigla undir áhrifum fíkniefna

Flateyri.
Flateyri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Skipstjóri hefur verið ákærður fyrir að hafa siglt undir áhrifum fíkniefna frá Flateyri til Suðureyrar um miðjan desember. Auk þess er maðurinn ákærður fyrir að slökkva á staðsetningartæki skipsins og fyrir að hafa ekki skráð skipverja um borð með réttum hætti.

Greint er frá ákærunni á vef RÚV. Farið er fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar og sviptur skipstjórnarréttindum sínum. Í ákæru kemur fram að hann hafi verið undir áhrifum amfetamíns.

Fram kom í frétt mbl.is að 14. desember hafi lögreglu borist ábending um að skipstjórinn væri mögulega undir áhrifum fíkniefna við stjórn bátsins en hann nálgaðist þá Flateyri að loknum veiðum. Auk skipstjórans voru fjórir aðrir skipverjar um borð.

Lög­regl­an beið skip­stjór­ans á bryggj­unni á Flat­eyri en þegar hann varð var við lag­anna verði sneri hann frá höfn­inni og sigldi áleiðs út Önund­ar­fjörð. Slökkti hann um leið öll sigl­inga­ljós og fljót­lega á sjálf­virk­um til­kynn­ing­ar­skyldu­búnaði.

Í fram­hald­inu voru björg­un­ar­sveit­ir kallaðar út til leit­ar að bátn­um, auk þyrlu og varðskips Land­helg­is­gæsl­unn­ar. Þá fóru lög­reglu­menn á ná­læg­ar hafn­ir. Um tveim­ur tím­um eft­ir að bát­ur­inn hafði farið frá Flat­eyri kom hann í höfn á Suður­eyri, þar sem skip­stjór­inn var hand­tek­inn og færður á lög­reglu­stöðina á Ísaf­irði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert