„Búnir að svíkja okkur frá A-Ö“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er ekkert sem kemur á óvart,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, um ákvörðun þeirra Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar um að ganga til liðs við Miðflokkinn frá og með deginum í dag.

Þeir eru að stela atkvæðum Flokks fólksins og fara með þau í Miðflokkinn. Ég segi bara gangi þeim vel á nýjum stað,“ segir Inga. Ólafur og Karl voru kjörnir á þing fyrir Flokk fólksins í alþingiskosningunum 2017 en voru reknir þaðan eftir að samræður sem þeir tóku þátt í á Klaustur bar í lok nóvember voru gerðar opinberar. Þeir hafa verið utan flokka síðan.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Ólafi og Karli að þeir telji að á vett­vangi Miðflokks­ins styrki þeir stöðu sína á Alþingi til að knýja á um fram­gang þeirra mál­efna sem kjós­end­ur treystu þeim fyr­ir í síðustu kosn­ing­um. Inga segir að þetta séu algjör öfugmæli.

„Kjósendur treystu þeim til að vinna að góðum málum og útrýma fátækt á Íslandi með Flokki fólksins, ekki Miðflokknum. Kjósendur treystu þeim til að vera heilir í því sem þeir voru að gera en ekki svikulir eins og þeir voru, eins og Klausturferðin sannar. Kjósendur treystu á að þessir menn væru heilir en þeir voru það greinilega ekki. Þetta eru bara svikarar, það er það sem þeir eru.“

Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Samsett mynd

Inga segir að Ólafur og Karl hafi greinilega fundið sig betur hjá Miðflokknum, enda hafi þeir verið meira með þingmönnum þess flokks síðan þeir settust á þing haustið 2017. Formaðurinn segist ekki líta á skipti þeirra í Miðflokkinn sem svik við sig en segir þau svik við kjósendur.

„Kjósendur Flokks fólksins eru sviknir vegna þess að þeir fara með atkvæðin okkar yfir í Miðflokkinn. Ef þetta fólk hefði kært sig um Miðflokkinn hefði það sett X við M en ekki F. Þetta snertir mig ekki persónulega,“ segir Inga.

Hún segist ekki hafa áhyggjur af framhaldinu í Flokki fólksins og að fólk þar sé „hrikalega sátt“. Spurð hvort hún muni geta unnið með Ólafi og Karli aftur er svarið afdráttarlaust:

„Nei. Ég hef engan áhuga á þessum mönnum. Þeir eru búnir að svíkja okkur frá A til Ö, bæði kjósendur, starfsmenn og alla. Ég mun aldrei vinna með þessum mönnum, aldrei. Þeir eru búnir að sýna sitt rétta eðli og ég kæri mig ekki um það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert