Fjúkandi fiskikör í Ólafsvík

Auk hífandi roks á svæðinu er sjávarstaða afar há, eins …
Auk hífandi roks á svæðinu er sjávarstaða afar há, eins og sjá má af ljósmyndum fréttaritara. mbl.is/Alfons Finnsson

Lögreglan í Ólafsvík hefur lokað fyrir umferð á hafnarsvæði bæjarins vegna fiskikara og ruslatunna sem fjúka um svæðið. Alfons Finnsson, fréttaritari mbl.is á staðnum, segir engan mega fara um svæðið nema af brýnni nauðsyn, en talsverð hætta er á ferð vegna lausamuna sem fjúka um svæðið.

Auk hífandi roks á svæðinu er sjávarstaða afar há, eins og sjá má af ljósmyndum fréttaritara, og hafa nokkur kör farið í sjóinn. Vindhviður í Ólafsvík hafa farið allt upp í 35 metra á sekúndu í kvöld, en þar er gul viðvörun í gildi, líkt og annars staðar á landinu, vegna suðvestan storms.

Veðurhorfur á landinu samkvæmt Veðurstofu Íslands:

Sunnan- og suðvestan 15-25, hvassast vestast. Skúrir. Suðaustan 13-20 um miðnætti og rigning, talsverð á suðaustanverðu landinu og einnig SV-til í fyrramálið. Úrkomulítið á N-landi. 
Suðvestan 18-28 og snarpar hviður við fjöll með éljagangi eftir hádegi. Hiti 3 til 10 stig en kólnar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert