Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, …
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um fjármögnun á rekstri þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis verður opnuð á Akureyri 1. mars. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigríður Andersen dómsmálaráðherra undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um fjármögnun þjónustumiðstöðvarinnar. Sambærileg þjónustumiðstöð, Bjarkarhlíð, er þegar starfrækt á höfuðborgarsvæðinu. 

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að lögreglustjórinn á Akureyri hefur yfirumsjón með verkefninu en aðrir samstarfsaðilar eru Akureyrarkaupstaður, Aflið – samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Háskólinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Samtök um kvennaathvarf, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands.

12 milljónir frá hvoru ráðuneyti

Þjónustumiðstöðin verður rekin sem tilraunaverkefni til tveggja ára og miðast fjárframlög ráðuneytanna við það. Hvort ráðuneyti leggur 12 milljónir króna til verkefnisins á tímabilinu svo heildarframlagið er samtals 24 milljónir króna.

Þjónustumiðstöðin verður samstarfsvettvangur opinberra aðila og frjálsra félagasamtaka sem aðstoða þolendur ofbeldis. Í miðstöðinni verður boðið upp á samhæfða þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi af einhverjum toga. Þá verður brotaþolum gefinn kostur á stuðningi og ráðgjöf í kjölfar ofbeldis, þeim að kostnaðarlausu.

Stuðningur við þjónustumiðstöðina er einn liður í aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem ráðherrar félags- og barnamála, dómsmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála standa að og er til umfjöllunar á Alþingi.

Við undirskrift samstarfsyfirlýsingarinnar í dag þökkuðu ráðherrarnir frumkvæði lögreglustjórans á Norðurlandi og samstarfsaðila sem standa að stofnun þjónustumiðstöðvarinnar en hún er mikilvægur liður í að koma þolendum ofbeldis á Norður- og Austurlandi til aðstoðar og greiða leið þeirra að félagslegum og lagalegum úrræðum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert