Nóg að gera hjá lögreglu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg að gera í nótt, samkvæmt …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg að gera í nótt, samkvæmt dagbók lögreglu. mbl.is/Eggert

Þjófur sem stal söfnunarbauk Rauða krossins úr verslunarmiðstöð í austurborginni um miðnætti komst undan á svörtu reiðhjóli. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en lögregla sinnti ýmsum verkum í gærkvöldi og í nótt.

Má nefna að ung kona kom á lögreglustöðina í Hafnarfirði kl. 20 í gærkvöldi og tilkynnti þjófnað á bæði veski sínu og síma. Þýfið fannst svo við Garðatorg, en síminn var skemmdur, búið var að taka 20.000 kr. úr veskinu og nota debetkortið fyrir 2.780 kr. Ekki er vitað hver var þarna að verki.

Þá var maður gripinn við að reyna að fara inn um opinn glugga í efri byggðum borgarinnar á fjórða tímanum í nótt, en húsráðandi kom að honum og þá lét maðurinn sig snarlega hverfa.

Laust fyrir miðnætti var tilkynnt um að stúlku hefði „verið byrlað einhverju“ í austurbæ Reykjavíkur. Hún var flutt á bráðamóttöku. Þá veitti lögregla tveimur mönnum aðstoð í gærkvöldi í Vesturbæ Reykjavíkur vegna fíkniefnaneyslu og lyfjamisnotkunar. Báðir voru fluttir á bráðamóttöku Landspítala.

Stakk af með vín af Hilton

Um klukkan fjögur í nótt stal maður áfengi af Hilton hótelinu á Suðurlandsbraut, hljóp út og lét sig hverfa. Þá var sömuleiðis tilkynnt um þjófnað úr verslun miðsvæðis í Reykjavík um kl. 19 í gær, en gerandinn komst undan áður en lögregla mætti á vettvang. Þjófnaður var tilkynntur í verslun í Garðabæ laust fyrir klukkan eitt í nótt og skýrsla tekin af geranda á vettvangi. Þá var hjóli stolið í Austurbænum og brotist inn í bíl við Kringluna.

Á þriðja tímanum var svo tilkynnt um að bíll æki á móti umferð í Ártúnsbrekku, en hann fannst ekki við eftirgrennslan lögreglu.

Hótaði að berja löggur

Einnig fékk lögregla tilkynningar vegna fólks í annarlegu ástandi og hafði afskipti af nokkrum sem létu ófriðlega. Einn maður í Austurbænum var orðljótur við lögregluþjóna sem kallaðir voru á vettvang eftir að tilkynning barst um að þar væri æstur maður á ferð. Hótaði maðurinn að berja lögegluþjónana og sparka í þá áður en hann gekk svo í burtu, samkvæmt því sem fram kemur í dagbók lögreglu.

Nágrannar hlógu of hátt

Um klukkan tvö í nótt var lögregla kölluð út að fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu, en þar hafði verið tilkynnt um hávaða frá nágrönnum. Samkvæmt því sem fram kemur í dagbók lögreglu var hlegið of hátt í nærliggjandi íbúð.

Lögreglan var svo með eftirlit með skólaballi í Árbæjarskóla í gærkvöldi. Þar fór allt vel fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert