Sigurður í fjögurra og hálfs árs fangelsi

Sigurður Kristinsson.
Sigurður Kristinsson. mbl.is/Hari

Sigurður Kristinsson var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir aðild að Skáksambandsmálinu svokallaða. Auk hans voru tveir til viðbótar dæmdir til fangelsisvistar.

Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins. Hákorn Örn Bergmann hlaut tólf mánaða dóm og Jóhann Axel Viðarsson var dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna.

Menn­irn­ir þrír voru ákærðir fyr­ir smygl á fimm kíló­um af am­feta­míni, sem fal­in voru í skák­mun­um og send með pakka sem stílaður var á Skák­sam­band Íslands.

Sig­urður kaus að gefa ekki skýrslu fyr­ir dómi við aðalmeðferð máls­ins, en einn sak­born­ing­anna sagðist ekki hafa vitað að í pakk­an­um hefðu verið fíkni­efni.

Hann hefði talið pen­inga vera í pakk­an­um. Það hefðu því runnið á hann tvær grím­ur þegar Sig­urður hefði sagt hon­um að það væri ekki sniðugt að hann tæki á móti pakk­an­um sjálf­ur.

Þriðji maður­inn játaði að hafa sótt pakk­ann fyr­ir utan hús­næði Skák­sam­bands Íslands. Sá seg­ir þó ekki held­ur hafa haft hug­mynd um að hann inni­héldi fíkni­efni, held­ur hefði sig grunað að þetta væru ster­ar.

Mennirnir hafa fjórar vikur til að ákveða hvort niðurstöðunni verði áfrýjað til Landsréttar.

mbl.is