Skuldi fólki opinbera afsökunarbeiðni

Öryrkjabandalagið segir að Tryggingastofnun ríkisins og ráðuneyti vísi hvert á …
Öryrkjabandalagið segir að Tryggingastofnun ríkisins og ráðuneyti vísi hvert á annað og þannig séu réttindi fólks áfram skert í andstöðu við lög. mbl.is/ÞÖK

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands krefst þess að stjórnvöld stöðvi strax hina ólögmætu skerðingu og greiði örorkulífeyri miðað við réttan útreikning búsetuhlutfalls frá og með 1. mars næstkomandi.

Ályktun þess efnis var samþykkt á fundi stjórnar ÖBÍ þar sem fjallað var um að Tryggingastofnun ríkisins hafi undanfarin ár hlunnfarið stóran hóp öryrkja um milljarða króna.

Fram kemur í ályktun ÖBÍ að stjórnvöld hafi loks viðurkennt skerðingarnar en ekkert hafi gerst og hinar ólögmætu skerðingar séu enn framkvæmdar. Ljóst sé að framkvæmd TR á búsetuskerðingum hafi staðið yfir í að minnsta kosti áratug.

Stjórn Tryggingastofnunar ríkisins skuldar því fólki sem lent hefur í þessum skerðingum opinbera afsökunarbeiðni. Skaðinn verður aldrei bættur að fullu en fyrsta skrefið er að greiða til baka hverja krónu sem tekin hefur verið af örorkulífeyrisþegum,“ segir á vef ÖBÍ.

Enn fremur segir að vandræðagangur stjórnvalda í málinu sé með ólíkindum. Tryggingastofnum og ráðuneytin vísi hvert á annað og þannig séu réttindi fólks áfram skert í andstöðu við lög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert