Starfsfólkið óskar friðar frá pólitík

Starfsfólk ráðhússins frábiður sér að verða hluti pólitískrar umræðu.
Starfsfólk ráðhússins frábiður sér að verða hluti pólitískrar umræðu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórn starfsmannafélags Ráðhúss Reykjavíkur óskar vinnufriðar í skjóli frá stjórnmálaumræðu sem eigi „með réttu að eiga sér stað á milli kjörinna fulltrúa og á pólitískum vettvangi.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem þess er óskað að starfsfólk borgarinnar og störf þess verði ekki gerð að opinberu umtalsefni í pólitískum tilgangi. Fram kom í frétt RÚV í dag að tveir starfsmenn hafi hrakist úr starfi vegna ólgu í ráðhúsinu.

„Í stjórnsýslu borgarinnar starfar fólk sem þykir vænt um vinnuna sína og vinnur af heiðarleika og einlægni að hag borgarbúa út frá ákvörðunum og stefnu borgarstjórnar hverju sinni,“ segir í tilkynningunni og nefnir stjórnin einnig að möguleikar starfsfólks til þátttöku í umræðunni og til þess að koma störfum sínum til varnar séu mjög takmarkaðir.

„Óskað er eftir því að starfsfólk fái frið til að vinna vinnuna sína án þess að störf þess séu gerð tortryggileg og án þess að vera blandað í stjórnmálaumræðu sem á með réttu að eiga sér stað á milli kjörinna fulltrúa og á pólitískum vettvangi,“ segir í tilkynningu stjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert