Leit gekk vel en enn ekkert spurst til Jóns

Jón Þröstur Jónsson hvarf sporlaust í Dublin og er hans …
Jón Þröstur Jónsson hvarf sporlaust í Dublin og er hans nú ákaft leitað.

Hátt í hundrað manns leituðu Jóns Þrast­ar Jóns­son­ar sem hefur verið týndur í tvær vikur. Jón sást síðast í Whitehall-hverfinu í Dublin um ellefuleytið að morgni laugardagsins 9. febrúar.

Í dag fór fram umfangsmesta einstaka leit frá hvarfi Jóns í Dublin. Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, segir um sjötíu Íra og 15 Íslendinga hafa tekið þátt í leitinni. Gengið var í hús, stigið inn í strætisvagna, leigubílstjórar spurðir hvort þeir hefðu séð til Jóns og rætt var við gangandi vegfarendur.

„Það er ekkert að svo stöddu sem segir eitt frekar en annað,“ segir Davíð spurður hvort einhverjar vísbendingar séu komnar fram um afdrif Jóns. „Þetta er enn jafn dularfullt.“

Davíð segir leitina hafa gengið mjög vel og hún hefði skilað leitarhópnum ýmsum gögnum sem afhent voru lögreglu. Aðstandendur Jóns vonast til þess að gögnin nægi til þess að kalla írsku björgunarsveitina út, en til þess þarf björgunarsveitin að hafa gögn til að byggja leitina á. „Þetta var besti leitardagurinn hingað til með tilliti til upplýsinga og afkasta,“ segir Davíð.

Spurður út í framhaldið segir Davíð það verða að skýrast, aðstandendur eigi fund með lögreglunni á morgun. „Þetta er þolinmæðisvinna og við vinnum okkur í gegnum þetta hægt og rólega,“ segir hann.

Davíð og bróðir hans, Daníel Örn, voru í vinsælasta spjallþætti Írlands í gærkvöldi. Davíð segir þáttinn sannarlega hafa skilað árangri enda þekkti hann annar hver maður sem hann ræddi við í dag við leitina að bróður sínum. Þá segir hann líklega alla í borginni meðvitaða um leitina að Jóni.

„Við erum svo að fara í annan stóran þátt á mánudag. Það er glæpaþáttur sem sérhæfir sig í að reifa sakamál og er með mikið áhorf hérna úti, vonandi skilar þátturinn mörgum ábendingum,“ segir Davíð.

Hann segir nánustu fjölskyldu Jóns halda áfram leit á helstu leitarsvæðum á morgun og byggir leitin að einhverju leyti á þeim gögnum sem leitin hefur þegar skilað. „Við bindum vonir við að björgunarsveitin taki við keflinu sem allra fyrst. Ef ekki munum við skipuleggja aðra stóra leit á öðrum leitarsvæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert