Segja hæstu launin hækka mest

Samtök atvinnulífsins birta kröfugerð Eflingar á heimasíðu sinni. Þau segja …
Samtök atvinnulífsins birta kröfugerð Eflingar á heimasíðu sinni. Þau segja hækkun lægstu byrjunarlauna gefa ófullnægjandi mynd af kröfugerðinni. mbl.is

Lægstu byrjunarlaun myndu hækka um 59% á næstu þremur árum og hæsta aldursþrep í hæsta virka launaflokki um 82% ef kröfur Eflingar í kjaraviðræðunum yrðu samþykktar óbreyttar.

Þá yrði launataflan endurskoðuð þannig að aldursþrepum yrði fjölgað um eitt og bil aukast á milli launaflokka og aldursþrepa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Samtaka atvinnulífsins, sem þau birtu í gærkvöldi á vefnum.

Í tilkynningu samtakanna segir að kröfugerð Eflingar byggist á þeim kröfum sem Starfsgreinasambandið hafi samþykkt 10. október síðastliðinn og að félagið hafi vísað deilu sinni til ríkissáttasemjara á grundvelli þeirra. Þá segir einnig að í viðræðum aðila hafi komið fram að Starfsgreinasambandið vilji sjá 1,5% bil milli launaflokka og 2% bil milli aldursþrepa.

Samkvæmt núgildandi launatöflu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins eru lægstu byrjunarlaun í neðsta launaflokknum, launaflokki 4, 266.735 krónur. Samtökin segja að Efling hafi krafist þess að þau hækkuðu upp í 425.000 fyrir lok samningstímans en hann á að vera til næstu þriggja ára. Myndi sú launahækkun nema 59%.

Á sama tíma gerði kröfugerð Eflingar ráð fyrir að í stað fimm ára starfsaldursþreps, líkt og nú sé, myndu koma tvö ný þrep sem miðuðust við sjö og tíu ár í starfi. Starfsmaður í lægsta launaflokki mun samkvæmt núgildandi launatöflu hækka upp í 272.261 krónu eftir fimm ár í starfi. Hæsta aldursþrepið samkvæmt kröfugerðinni myndi hins vegar færa starfsmanni í lægsta launaflokki 459.000 krónur á mánuði eftir tíu ára starf, eða sem nemur 69% hækkun frá núgildandi taxta, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert