Umfangsmesta aðgerðin hingað til

Leitarmenn samankomnir á samkomustað áður en haldið er út. Eins …
Leitarmenn samankomnir á samkomustað áður en haldið er út. Eins og sést eru margir klæddir bolum merktum leitinni að Jóni Þresti. Ljósmynd/Aðsend

Í dag hefst umfangsmesta einstaka aðgerðin í leitinni að Jóni Þresti Jónssyni, Íslendingi sem hvarf í Dublin fyrir tveimur vikum síðan. Fleiri tugir írskra sjálfboðaliða taka þátt í þaulskipulagðri aðgerð.

Svæðið í kringum hvarfstaðinn hefur verið kortlagt með hjálp björgunarsveitarmanna og unnið verður út frá því korti. Sífellt afmarkaðri mynd hefur fengist af hugsanlegri staðsetningu Jóns Þrastar.

„Framvindan er eiginlega bara ótrúleg á þessari stundu,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastars, bjartsýnn í samtali við mbl.is. Hann er staddur á samkomustað leitarmanna, þar sem leitin hefst hvað úr hverju. 60 hafa þegar skráð sig.

Hvort menn séu einhverju nær er óljóst um sinn en Davíð segir ekkert útilokað. Grundvöllur leitarinnar stendur styrkum fótum: hátt í 4000 veggspjöld hafa verið hengd upp og Davíð og bróðir hans, Daníel Örn, voru teknir tals í rótgrónum írskum spjallþætti í gær.

Stærsta einstaka leitin

Markmiðið er núna fyrst og fremst að afla upplýsinga, að hans sögn; spyrjast fyrir um afdrif Jóns Þrastar á meðal almennra borgara. Í því felst að ganga í hús, stoppa strætisvagna og einfaldlega spyrja gangandi vegfarendur hvort þeir geti veitt nokkrar upplýsingar.

Það eru Írar sem hafa hjálpað aðstandendum Jóns Þrastar við að leita hans og Davíð hljómar sannast gáttaður á velvild þeirri sem þau hafa mætt. „Þetta er alveg ótrúlegt. Þetta er bara venjulegt fólk með fallegt hjartalag sem býður fram aðstoð sína,“ segir hann.

Þetta er stærsta einstaka leitin sem ráðist hefur verið í en fjölskylda Jóns Þrastars og aðstandendur aðrir hafa nú leitað hans í tvær vikur. Það má því nærri geta að mikið starf er að baki: samtals hafa þau gengið fleiri þúsund kílómetra.

Sjálfboðaliðar skrá sig í leitina hjá skipuleggjendum. Gert er ráð …
Sjálfboðaliðar skrá sig í leitina hjá skipuleggjendum. Gert er ráð fyrir hátt í 100 manns. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert