Ekki falið að skoða hátekjuskattþrep

Axel Hall, formaður sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa, sem …
Axel Hall, formaður sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa, sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérfræðingahópi um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa var ekki falið að skoða áhrif og útfærslu hátekjuskattþreps við endurskoðun skattkerfisins. „Okkur voru ekki lagðar línur um það og það gerði það einfaldlega að verkum að við horfum ekki til útfærslu þess,“ segir Axel Hall, formaður sérfræðingahópsins, í samtali við mbl.is. Hann kynnti skýrslu hópsins í heild sinni í dag en í síðustu viku kynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tillögur hópsins.

Axel segir að hópurinn hafi haft það að leiðarljósi að tillögurnar myndu skila ávinningi til þeirra sem hafa lágar tekjur með þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar án þess þó að öðrum væri íþyngt. „Enda fólst ekki í okkar umboði að hækka skatta og það verður að horfa á tillögur sérfræðingahópsins í því ljósi,“ segir Axel.   

ASÍ og BSRB hafa farið fram á að komið verði á hátekjuskatti og telur BSRB tillögur stjórnvalda að breytingum á skattkerfinu ekki ganga nægilega langt í átt að jöfnuði og réttlæti í samfélaginu.

ASÍ leggur til að tekið verði upp fjögurra þrepa skattkerfi þar sem fjórða skattþrepið verði eins konar hátekjuskattur.

Axel segir að yfirstandandi kjaraviðræður hafi óneitanlega haft áhrif á vinnu sérfræðingahópsins, sem hófst í sumar. „Öll þessi gerjun sem hefur átt sér stað í samfélaginu hefur knúið okkur til þess að velta við fleiri steinum en við gerðum í upphafi til þess að stjórnvöld væru með svör og væru undirbúin.“ Markmið hópsins hafi hins vegar alltaf verið það sama, það er að minnka álögur og auka jöfnuð.

Meðal helstu tillagna hópsins er að persónuafsláttur verði lækkaður samhliða því að bæta við lægra skattþrepi, auk þess sem gert er ráð fyrir að skattleysismörk og tekjumörk skattþrepa fylgi þróun samanlagðra breytinga á vísitölu neysluverðs og þróun framleiðni. „Með þessu er komið í veg fyrir að raunskattskrið liðinna ára endurtaki sig,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Í skýrslunni má finna umfangsmikla greiningu á tekjuskattskerfinu, m.a. um þróun kerfisins og áhrif þróunarinnar á ólíka hópa, samnýtingu þrepa og skattlagningu launatekna þeirra sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur. Þá er umfjöllun um húsnæðisstuðnings- og barnabótakerfi og samspil þeirra við skattkerfið þar sem greind voru áhrif stuðningskerfanna á ólíka hópa í samfélaginu.

Nýtt neðra þrep og ný viðmið í þróun marka

Í skýrslunni er einnig settur fram samanburður annars vegar við tekjuskattskerfi hinna Norðurlandanna og hins vegar barnabótakerfi.

Meðal helstu niðurstaðna er að raunskattskrið, það er þegar tengsl persónuafsláttar við vísitölu neysluverðs á tímum hækkunar kaupmáttar auka skattbyrði hjá hinum tekjulægri en ekki þeim sem hafa hærri tekjur, hefur orðið með hækkun launa umfram skattleysismörk, sem hefur valdið því að dregið hefur úr jöfnun skattkerfisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert