Funda vegna skrifa um kynferðislega áreitni

Frá keppni í júdó.
Frá keppni í júdó. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Másson, formaður Júdósambands Íslands, kveðst ekki þekkja til þess máls sem Halla Gunnarsdóttir, ráðgjafi forsætisráðherra, fjallaði um í pistli á vefnum knuz.is fyrir helgi. Þar sagði Halla frá kynferðislegri áreitni af hálfu júdóþjálfara sem hún varð fyrir.

Atvikið varð fyrir nokkrum árum þegar Halla var að byrja að æfa júdó á Íslandi en Jóhann segir að það sé erfitt fyrir hann að ræða mál sem hann þekki ekki og hafi átt sér stað áður en hann hóf störf hjá Júdósambandinu. Stjórn Júdósambandsins muni funda vegna skrifa Höllu í næstu viku.

„Varðandi Júdósambandið í dag þá tökum þessi mál mjög alvarlega,“ segir Jóhann. Unnið sé með íþróttahreyfingunni allri í tengslum við mál sem kennd eru við #MeeToo-byltinguna. Hann segir að umhverfið í íþróttinni í dag sé mjög gott og sérstök áhersla sé lögð á að auka hlut kvenna.

„Það er auðvitað ömurlegt þegar svona er og þetta er hlutur sem þarf að vera í lagi,“ segir Jóhann. Hann hefur ekki heyrt af fleiri málum tengdum kynferðislegri áreitni í júdó. „Það hefur verið töluverð umræða um þetta en ég þekki ekki til svona mála.“

Jóhann tók við sem formaður Júdósambandsins fyrir sex árum og segist hafa sett sér það markmið að auka hlut kvenna í íþróttinni. „Ég hef ekkert heyrt frá þeim í kringum kvennaliðin um einhverja svona framkomu. Það kæmi mér mjög á óvart ef eitthvert slíkt væri í gangi sem ekki hefði komið upp á yfirborðið. Við höfum hvatt okkar stúlkur og konur hiklaust til að koma með allt fram.

Hann segir að það skipti miklu máli að traust ríki meðal þeirra sem stunda júdó, sérstaklega þegar litið er á hvernig íþróttin er. „Það er mikið um snertingar í júdó, strákar glíma við stelpur og ég er að þjálfa unglinga sem glíma hvert við annað. Gagnkvæm virðing og góð framkoma er lykilatriði í að íþróttin þrífist. Ég er í góðri trú að þessir hlutir séu í góðu lagi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert