Utanríkisráðherrar ræddu leitina að Jóni

Guðlaugur Þór og Simon Coveney í Genf í morgun.
Guðlaugur Þór og Simon Coveney í Genf í morgun. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hitti í morgun Simon Coveney utanríkisráðherra Írlands á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf og tók upp við hann mál Jóns Þrastar Jónssonar, sem leitað er í Dublin. Þetta segir á vef utanríkisráðuneytisins.

Þar kemur fram að Guðlaugur Þór hafi þakkað Coveney fyrir sýnda velvild írsku þjóðarinnar sem tók virkan þátt í leit um liðna helgi og gott samstarf lögregluyfirvalda.

Írski utanríkisráðherrann þekkti prýðilega til málsins, enda hefur það vakið mikla athygli á Írlandi, og tók málaleitan Guðlaugs Þórs vel.

Coveney sagði írsk lögregluyfirvöld kappkosta að varpa ljósi á málið og hét áframhaldandi samvinnu og upplýsingamiðlun, samkvæmt því sem fram kemur á vef ráðuneytisins.

Ráðherrarnir ræddu einnig mikilvægi þess að efla tvíhliða samstarf Íslands og Írlands, enda þjóðirnar nánar og næstu nágrannar. Samvinna á sviðum afvopnunar, sjávarútvegs og í málefnum norðurslóða kom einnig til umræðu á fundi ráðherrana, samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert