Síðasta skítverkið fyrir borgarstjóra

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn, segir að Stefán Eiríksson borgarritari hljóti að leita sér að nýju starfi á næstunni eftir færslu hans um hegðun ákveðinna borgarfulltrúa á Facebook-síðu starfsmanna Reykjavíkurborgar í síðustu viku.

„Færslan er dæmalaus,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is. „Hún er til þess fallin að breiða yfir lögbrot og spillingu í borginni. Þetta er smjörklípa,“ bætir Vigdís við en hún hefur gagnrýnt meirihlutann í borginni harðlega síðasta tæpa árið.

Tekur skrifin ekki til sín

Stefán nafngreinir ekki borgarfulltrúa í færslunni þar sem hann segir fáeina borgarfulltrúa hafa ítrekað vænt starfsfólk borgarinnar um óheiðarleika. Talið er að Stefán beini skrifum sínum að Vigdísi, Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins, og Kolbrúnu Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins. Vigdís segist ekki geta tekið skrifin til sín.

„Það er ég sem hef staðið upp fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar,“ segir Vigdís og nefnir í því samhengi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Reykjavíkurborg tapaði skaðabótamáli vegna framkomu skrifstofustjóra í garð fjármálastjóra.

„Mér líka yfir höfuð mjög illa nafnlausar dylgjur.“

Vigdís segir að embættismenn borgarinnar séu ekki kosnir af Reykvíkingum og eigi að vinna fyrir alla kjörna fulltrúa. Staðan í tíð núverandi meirihluta sé á þann veg að embættismennirnir séu komnir með eitthvert ósýnilegt vald til að stjórna.

Stefán Eiríksson borgarritari.
Stefán Eiríksson borgarritari. mbl.is/Styrmir Kári

Eins og kom fram í gær bar Stefán færsluna undir Dag B. Eggertsson borgarstjóra áður en hann birti hana. Vigdís segir ljóst að Stefán sé að vinna skítverkin fyrir Dag og að það sé ekki í fyrsta sinn sem embættismenn geri það.

„Borgarritari hlýtur að vera að fara af vettvangi. Þetta hlýtur að vera síðasta skítverkið sem hann vinnur fyrir Dag B. Eggertsson. Ég veit ekkert hvernig borgarritari ætlar að sitja fundi með kjörnum fulltrúum eftir þessa bombu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert