Lögreglan vinnur úr fjölda ábendinga

Björgunarsveitir í Dyflinni hefja ekki leit fyrr en haldbærar vísbendingar …
Björgunarsveitir í Dyflinni hefja ekki leit fyrr en haldbærar vísbendingar um mögulega staðsetningu Jóns liggja fyrir.

Írsku lögreglunni barst fjöldi ábendinga vegna hvarfs Jóns Þrastar Jónssonar eftir að fjallað var um málið í sjónvarpsþættinum Crimecall á RTÉ í gærkvöldi.

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, var nýbúinn að tala við lögregluna þegar mbl.is sló á þráðinn til hans og segist hann vongóður um að ábendingarnar skili einhverju. Um sé að ræða ansi tímafreka vinnu af hálfu lögreglu, sem einnig vinnur að því að fara í gegnum þau gögn sem söfnuðust við leitina á laugardag.

„Þeir eru á fullu að fara yfir þessi gögn en það getur tekið einhverja daga að fara yfir þetta allt. Við fjölskyldan erum enn að hengja upp auglýsingar og leita en um leið og lögreglan hefur farið í gegnum öll gögn tökum við ákvörðun um næstu skref,“ segir Davíð.

Áður hefur komið fram að björgunarsveitir í Dyflinni hefja ekki leit fyrr en haldbærar vísbendingar um mögulega staðsetningu Jóns liggja fyrir. Davíð segir fjölskylduna binda vonir við að ábendingar laugardagsins og gærkvöldsins geti komið lögreglu á sporið þannig að sveitirnar verði kallaðar til.

„Eftir því sem við vitum best eru þær bara í startholunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert