Talinn hafa tapað hálfri milljón króna

Jón Þröstur á gangi skömmu eftir að hann gekk út …
Jón Þröstur á gangi skömmu eftir að hann gekk út af hóteli sínu. Úr öryggismyndavél

Talið er að Jón Þröstur Jónsson hafi tapað allt að 4.000 evrum, rúmlega hálfri milljón íslenskra króna, í póker kvöldið áður en hann hvarf í Dyflinni á Írlandi 9. febrúar síðastliðinn. Þessu er haldið fram í umfjöllunum tveggja írskra fjölmiðla.

Þar segir að áhyggjur af Jóni fari vaxandi, enda hafi ekkert spurst til hans í 17 daga þrátt fyrir komu fjölskyldu hans til Írlands og leitaraðstoð hátt í hundrað heimamanna. Fjölmiðlarnir sem greina frá þessu eru Independent og Herald.

Í samtali við miðlana segist Daníel Örn Wiium, bróðir Jóns Þrastar, telja að hálf milljón sé ekki stór upphæð í fjárhættuspilum og hafi Jón Þröstur farið í göngutúr til að hreinsa hugann hafi það ekki verið vegna peninga.

Jón Þröstur gekk út af hóteli sínu í Dyflinni að morgni laugardagsins 9. febrúar. Hann hafði komið til borgarinnar kvöldið áður einn síns liðs en unnusta hans hafði komið til hans á hótelið fyrr um morguninn. Var hún á hótelbarnum að fá sér kaffi þegar Jón Þröstur gekk síma- og vegabréfslaus út af hótelinu.

Hann hafði ekki greint unnustu sinni frá því að hann hygðist yfirgefa hótelið eða hvert hann ætlaði. Talið er að Jón Þröstur hafi verið með talsvert magn af reiðufé á sér þegar hann hvarf, auk þess sem rannsóknarlögreglan í Dyflinni hefur greint frá því að hann hafi haft greiðslukort sín með sér. Samkvæmt bankayfirliti hans hafa greiðslukort hans þó ekki verið notuð síðan hann hvarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert