Veikindalisti hafi ekki hangið uppi

Framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs hjá Íslandshótelum segir að listi yfir …
Framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs hjá Íslandshótelum segir að listi yfir veikindi starfsmanna hafi ekki hangið uppi á vegg á Grand hóteli og að Efling hafi ekki haft samband vegna málsins. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Þetta er náttúrulega listi sem lá inni á skrifstofu yfirmanns og hékk ekki neins staðar uppi, þannig að það eru rangfærslur í þessari frétt. Þetta er bara yfirlit um veikindi starfsmanna rétt eins og fólk heldur utan um sumarorlof og vetrarorlof, þá eru yfirmenn með svona lista hjá sér,“ segir Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs hjá Íslandshótelum.

Efling stéttarfélag sendi frá sér tilkynningu í morgun, þar sem fullyrt var að „skammarlisti“ hefði hangið uppi á hóteli í Reykjavík, með upplýsingum um það hversu marga veikindadaga starfsfólk hefði tekið á árinu 2018. Um var að ræða Grand hótel, sem er í eigu Íslandshótela.

Fram kom í tilkynningu Eflingar að stéttarfélaginu hefði borist tilkynning um listann fyrr í þessum mánuði, en Erna Dís segir að þrátt fyrir að svo sé hafi Efling ekki haft samband við eigendur Grand hótels til þess að kanna málið frekar, en mynd af listanum var send út í fréttatilkynningu í morgun. Fréttatilkynningunni fylgdu upplýsingar um að lögfræðingur ASÍ ætlaði að senda Persónuvernd tilkynningu um málið og að birting lista sem þessa gæti varðað sektum.

„Við buðum þeim [í Eflingu] hérna á fund um daginn og þau ræddu við allt okkar starfsfólk og það var allt fagmannlegt okkar á milli. Þau segja að þeim hafi borist þetta í upphafi mánaðar, samkvæmt fréttinni. Þau hafa ekki haft neitt samband við okkur,“ segir Erna Dís.

„Þau hefðu líka getað komið hérna og skoðað hjá okkur að þessi listi er ekkert uppi á vegg, ef þau hefðu komið. Það er náttúrulega eðlilegt að haldið sé utan um sumarfrí, veikindadaga og annað eins og yfirmenn séu með yfirlit um það hjá sér, í möppum, á sínum einkaskrifstofum,“ bætir hún við.

Hefur þá einhver farið inn á einkaskrifstofu og tekið mynd af þessum lista?

„Nú veit ég ekki hvernig þessi mynd komst [til Eflingar], alla vega er þessi mynd ekki frá okkur, en ég vil ekki ásaka neinn um neitt heldur. Ég veit ekki hvernig þessi mynd komst til þeirra, en auðvitað hefði Efling bara getað skoðað aðstæðurnar hjá okkur hérna um daginn ef þau hefðu viljað. Ég tek fram að þetta er enginn skammarlisti, þarna er fólk sem er ekki með neina veikindadaga, tvo veikindaga. Þarna er bara verið að halda utan um það, hvað fólk á mikið inni af veikindadögum og annað eins,“ segir Erna Dís.

„Mér finnst dálítið spes að það sé verið að geyma þessi gögn frá því í upphafi mánaðar og að þau séu að koma út núna, án þess að það sé eitthvað talað við okkur um þetta mál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert