Aflandskrónulosun eina málið á dagskrá

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, flutti 60 ræður um aflandskrónulosun …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, flutti 60 ræður um aflandskrónulosun á þingi í gærkvöldi og í nótt. Umræðan hélt áfram á Alþingi þegar þingfundur hófst klukkan 15 í dag. Skjáskot/Alþingi

Þingfundur hófst klukkan þrjú á Alþingi þar sem fram er haldið umræðu um frum­varp fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um meðferð krónu­eigna sem háðar eru sér­stök­um tak­mörk­un­um og gjald­eyr­is­mál. Ekkert annað mál er á dagskrá þingfundarins.

Líkt og í umræðunni í gær raða þingmenn Miðflokksins sér á mælendaskrá. Þingmenn annarra flokka hafa ekki óskað eftir að fá orðið, að undanskildum Óla Birni Kárasyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, og Þorsteini Víglundssyni, þingmanni Viðreisnar. 

Í tilkynningu frá þingflokki Miðflokksins segir að á þingfundinum í gær hafi þingmenn Miðflokksins reynt að fá svör við spurningum um áform stjórnvalda um einhliða afléttingu fjármagnshafta af vogunarsjóðum og svör við því hvers vegna ekki er gætt hagsmuna þjóðarinnar. „Hagsmunir sem hlaupa á milljörðum króna.“

Þingmenn Miðflokksins benda á að í annarri umræðu um málið, hafi enginn fulltrúi þeirra flokka sem styðja málið hafið ræðu til að verja það eða útskýra, ef frá er talin framsaga formanns efnahags- og viðskiptanefndar á nefndaráliti.

Yfir 300 ræður Miðflokksþingmanna í 15 tíma umræðu

Önnur umræða um frumvarpið hófst klukkan 15 í gær og stóð yfir í rúma 14 klukkutíma, eða þar til þingfundi var slitið klukkan 5:21. Þingmenn annarra flokka tóku til máls í upphafi en fljótlega var mælendaskráin einungis skipuð þingmönnum Miðflokksins sem héldu yfir 300 ræður um málið í gærkvöldi og nótt. Oftast talaði Gunnar Bragi Sveinsson, 64 sinnum, en þar á eftir kom Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem fór 60 sinnum í ræðustól þingsins.

Frumvarpið snýst í meginatriðum um hvort aflandskrónueigendum verði heimilt að fjárfesta í innistæðubréfum Seðlabankans í stað þess að setja féð eingöngu inn á bundinn reikning. Í umsögn Seðlabankans um frumvarpið kemur fram að bankinn telji það mikilvægt að afgreiðsla frumvarpsins liggi fyrir áður en gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa renni upp, sem var í gær.

Þingmenn Miðflokksins segja að frumvarpið feli í sér „algjört og endanlegt fráhvarf frá aðgerðaáætlun stjórnvalda frá árinu 2015 um losun hafta og endurreis efnahagslífsins. „Sú áætlun byggðist á þremur meginstoðum sem ráðast skyldi í sem eina heild þar sem allir legðu sitt af mörkum til endurreisnarinnar. Þeim þætti sem snýr að lausn aflandskrónuvandans er enn ólokið. Áform stjórnvalda nú ganga þvert á þá lausn sem lagt var upp með og að meginstefnu fylgt til þessa,“ segir í tilkynningu þingmanna flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert