Ísskrið gerir mönnum erfitt fyrir

Björgunarsveitarmenn sigla á Ölfusá í gær.
Björgunarsveitarmenn sigla á Ölfusá í gær. mbl.is/Hallur Már Hallsson

Ísskrið í Ölfusá hefur gert björgunarsveitarmönnum á bátum erfitt fyrir í leitinni að Páli Mar Guðjónsssyni sem er talinn hafa ekið bifreið sinni út í ána á mánudagskvöld.

Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Suðurlandi, verður ísskrið þegar ís brotnar ofar í ánni og kemur síðan fram sem mulningur. Áin er einnig gruggug og aðstæðurnar því ekki eins og best verður á kosið. Veðrið hefur þó verið mun betra í dag heldur en í gær. 

Gönguhópar hafa gengið meðfram ánni, auk þess sem drónar hafa verið notaðir við leitina.„Það er verið að nota öll möguleg tæki og tól,” segir Oddur og bætir við að leitin sjálf hafi gengið ágætlega.

Farið verður yfir hluta leitarsvæðisins einu sinni í dag en yfir annan hluta tvívegis. Oddur segir að klárað verði að fara yfir allt svæðið fyrir myrkur. Engin ákvörðun hefur verið tekin um framhald leitarinnar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur ekkert flogið yfir leitarsvæðið í dag.

Frá leitinni í gær.
Frá leitinni í gær. Ljósmynd/Guðmundur Karl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert