Óhefðbundinn tími fyrir nefndarfund

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Fundur efnahags- og viðskiptanefndar hófst rétt í þessu, klukkan 21, og er það heldur óhefðbundinn nefndarfundartími. Fundurinn er haldinn í beinu framhaldi af annarri umræðu um frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um aflandskrónulosun, sem lauk á níunda tímanum í kvöld.

Umræðan hófst í gær og stóð yfir samanlangt í um tuttugu klukkutíma. Meirihluta tímans voru einungis þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að yfirtaka Miðflokksmanna á ræðustól Alþingis í umræðum um frumvarpið muni ekki hafa áhrif á meðferð þess í þinginu. „Við höldum okkar striki og göngum í verkin og klárum þau, það er nú bara þannig,“ segir hann í samtali við mbl.is.  

Sérfræðingar frá Seðlabankanum gestir fundarins

Á fund nefndarinnar í kvöld verða, auk nefndarmanna, sérfræðingar frá Seðlabankanum.

Í umræðum um frumvarpið fyrr í dag sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, að Miðflokksmenn vilji svör frá stjórnvöldum er varða frumvarpið. Óli Björn benti þá á að Sigmundur hefði ekki mætt á mikilvæga fundi nefndarinnar þar sem hægt var að leggja fram spurningar.

„Það hafa verið fjölmörg tækifæri frá því að frumvarpið var lagt fram að koma á framfæri óskum um málsmeðferðina eða ef menn þurfa einhverjar frekari upplýsingar,“ segir Óli Björn.

Óli Björn veit ekki betur en að allir nefndarmenn, þar á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, muni sitja fund nefndarinnar í kvöld. Hann býst ekki við löngum fundi. „En við tökum þann tíma sem þarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert