Tókust á um „ónefnda Íslendinginn“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Spartakusar, í Landsrétti í morgun.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Spartakusar, í Landsrétti í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmenn tókust á í Landsrétti í morgun í dómsmáli sem Guðmundur Spartakus Ómarsson höfðaði gegn Atla Má Gylfasyni, fyrrverandi blaðamanni Stundarinnar.

Málið snýst um um­fjöll­un Atla Más um Friðrik Kristjáns­son sem hvarf spor­laust í Suður-Am­er­íku árið 2013. Í ít­ar­legri um­fjöll­un Atla Más um málið kaf­aði hann ofan í fíkni­efna­heim­inn á landa­mær­um Bras­il­íu og Parag­væ og bendl­aði Guðmund Spar­tak­us við hvarf Friðriks.

Eins og mbl.is greindi frá gaf Guðmundur skýrslu fyrir dómi í morgun þar sem hann neitaði því alfarið að þekkja Friðrik eða hafa hitt hann. Þá neitaði hann því að vera nokkuð viðriðinn fíkniefnasmygl eins og stefndi, Atli Már, hafi haldið fram í umfjöllun sinni.

Meðal þess sem Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Spartakusar, tók fyrir í málflutningi sínum voru hrottalegar lýsingar á því hvernig Friðrik átti að hafa verið myrtur í Paragvæ. Var þar meðal annars talað um afskorið höfuð í poka.

„Þetta eru svakalegar lýsingar. Mér er til efs að áður hafi jafn hrottalegar lýsingar, hvað varðar íslenskan aðila, birst á prenti eða í ljósvakaefni. Og það án þess að stefndi hafi haft nokkuð fyrir sér í því að áfrýjandi þessa máls hafi gerst sekur um þá háttsemi sem þarna er lýst,“ sagði Vilhjálmur í málflutningi sínum.

Guðmundur Spartakus Ómarsson í Landsrétti í morgun.
Guðmundur Spartakus Ómarsson í Landsrétti í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tókust á um „ónefnda Íslendinginn“

Lögmenn Atla og Guðmundar tókust á um hvort „ónefndi Íslendingurinn“ sem víða kemur við í umfjöllun Atla Más hafi verið Guðmundur Spartakus. Atli neitaði því fyrir héraðsdómi og lögmaður hans ítrekaði það í málflutningi sínum.

„Stefndi ber því við að hann sé hér ekki að fjalla um áfrýjanda þessa máls. Þetta sé einhver ónefndur Íslendingur sem stefndi gat ekki nefnt á nafn af lögfræðilegum ástæðum. Þessar útskýringar, sem héraðsdómur keypti, halda auðvitað ekki vatni,“ sagði Vilhjálmur.

Vilhjálmur sagði það hins vegar augljóst að með ummælunum um hinn ónefnda Íslending væri verið að vísa til skjólstæðing hans. Það sé meðal annars út af samhenginu, birtingu vegabréfs hans í fjölmiðlum og hvernig nafn hans væri merkt við fréttir um málið, auk nafns Friðriks Kristjánssonar. 

„Það sem bjó að baki þessum fréttaflutningi var ekkert annað en auglýsingamennska til þess að búa til tekjur fyrir Stundina,“ sagði Vilhjálmur í málflutningi sínum.

Atli Már Gylfason og Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður hans, í …
Atli Már Gylfason og Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður hans, í Landsrétti í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Facebook-færsla sem gæti skipti sköpum

Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Atla, útskýrði að viðkomandi merkingar væru einungis til þess að flokka fréttir málsins, svipað og myndir séu merktar með stikkorðum. Það sé óumdeilt að fjallað hafi verið um Guðmund Spartakus í tengslum við hvarf Friðriks og þess vegna sé það ekki óeðlilegt að nafn hans sé merkt við fréttina.

Vilhjálmur sagði það fráleitt, og að lögmaður stefnda hafi verið að viðurkenna tengingu Guðmundar við umfjöllun Atla.

Gunnar Ingi benti hins vegar á undir lok síns málflutnings að í umfjöllun Atla hafi verið minnst á Facebook-færslu sem hinn ónefndi Íslendingur hefði birt á síðu sinni. Þar hafi athugasemd meðal annars verið birt um hið meinta afskorna höfuð í poka. Gunnar benti á að lögmaður áfrýjanda hafi aldrei minnst á þessa færslu í sínum málflutningi, sem gæfi til kynna að hann geti ekki verið þessi ónefndi Íslendingur.

Guðmund­ur Spartakus krefst þess að þar til gerð um­mæli verði dæmd dauð og ómerk, auk þess sem hann krefst 10 millj­óna í miska­bæt­ur, auk vaxta. Atli Már fer fram á að málinu verði vísað frá dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert